Íslenski boltinn

Besta upp­hitunin: Í sigur­vímu eftir af­rekið sögu­lega

Sindri Sverrisson skrifar
Erna Guðrún Magnúsdóttir og Sigdís Eva Bárðardóttir voru gestir í Bestu upphituninni í dag.
Erna Guðrún Magnúsdóttir og Sigdís Eva Bárðardóttir voru gestir í Bestu upphituninni í dag. Stöð 2 Sport

Erna Guðrún Magnúsdóttir og Sigdís Eva Bárðardóttir, leikmenn Víkings, mættu glaðbeittar til Helenu Ólafsdóttur í Bestu upphitunina og rýndu meðal annars í komandi leiki í 11. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta.

Bestu upphitunina má sjá hér neðst í greininni. Ellefta umferðin hefst í kvöld þegar Þróttur tekur á móti Selfossi en á morgun fara svo fram fjórir leikir. Allir leikirnir verða að vanda í beinni útsendingu en útsendingin frá stórleik FH og Vals á morgun verður sérstaklega stór.

Leikirnir í 11. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta.Stöð 2 Sport

Væntanlega er mikið hungur í FH-ingum eftir tapið sára á föstudaginn gegn Ernu, Sigdísi og stöllum þeirra í Víkingi, í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn fór 2-1 og skoraði Sigdís bæði mörk Víkings.

Þar með komst kvennalið Víkings í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn, og það þrátt fyrir að spila í næstefstu deild, Lengjudeildinni.

Fór frá FH í góðu og tilfinningin því mjög skrýtin

„Ég er eiginlega enn að átta mig á að við séum að fara að spila á Laugardalsvelli. Þetta hefur verið markmið mjög lengi, en verandi í Lengjudeildinni aðeins minnkað. En núna er maður kominn þangað og það er bara geggjað,“ sagði Erna Guðrún.

„Þetta var frábært. Að vera með stuðninginn sem kom, það voru ógeðslega margir á leiknum, og allar sem voru á bekknum hjá okkur hlupu inn á um leið og leikurinn var búinn. Þetta var bara geggjað,“ sagði Sigdís.

Sigdís er með mikið Víkingsblóð í æðum en Erna Guðrún kom til félagsins í vetur eftir að hafa fætt barn í fyrra, en áður lék hún einmitt með FH. Henni fannst því skrýtið að koma í Kaplakrika sem gestur:

„Það voru mjög blendnar tilfinningar. Ég fór úr FH í góðu og held með þeim í Bestu deildinni. Þetta var því mjög skrýtin tilfinning en geggjað að hafa klárað þetta,“ sagði Erna en Bestu upphitunina má sjá hér að neðan.

Klippa: Besta upphitunin fyrir 11. umferð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×