Fótbolti

Kante keypti sér heilt fótboltalið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
N'Golo Kante með bikarinn eftir sigur Frakka á HM 2018.
N'Golo Kante með bikarinn eftir sigur Frakka á HM 2018. Getty/Michael Regan

N'Golo Kante er einn þeirra leikmanna sem hafa skellt sér suður á boginn til að spila í Sádi-Arabíu.

Kante mun ganga til liðs við Al-Ittihad á morgun, 1. júlí, á frjálsri sölu frá Chelsea.

Það eru þó ekki einu fréttirnar af þessum hógværa Frakka. Hinn 32 ára gamli Kante er greinilega farinn að huga að lífinu eftir fótboltann því hann er byrjaður að fjárfesta í fótboltanum.

Kante ákvað þannig að kaupa belgíska fótboltafélagið Royal Excelsior Virton. Hann mun taka við stjórn félagsins af stjórnarformanninum Flavio Becca. Það kom ekki fram hvað Kante borgaði fyrir félagið.

Félagið er í þriðju deild í Belgíu og staðsett við landamærin við Lúxemborg. Það fylgir sögunni að félagið er skuldlaust en markmiðið með nýjum eiganda er að vinna sig upp í efstu deild.

Kante mun eignast félagið á morgun eða sama dag og samningur hans tekur gildi. 1. júlí 2023 er því stór dagur í hans lífi.

Kante byrjaði feril sinn í Frakklandi en hann kom til fyrst til Englands þegar Leicester City keypti hann frá Caen. Kante vann ensku úrvalsdeildina bæði með Leicester og Chelsea auk þess að vinna Meistaradeildina, Evrópudeildina og enska bikarinn hjá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×