Innlent

„Það er ekkert grín fyrir hundana að fá þetta“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rjúpa var fyrsti hundur Jóhanns til þess að veikjast af hótelhóstanum. 
Rjúpa var fyrsti hundur Jóhanns til þess að veikjast af hótelhóstanum.  Jóhann Helgi Hlöðversson

Hunda­eig­andi sem missti einn hund sinn sem veiktist af svo­kölluðum hótel­hósta og á tvo hunda til við­bótar sem eru veikir vill vara hunda­eig­endur við að fara með dýr sín á fjöl­farin hunda­svæði á meðan pestin gengur yfir. Hann segist hafa átt hunda í mörg ár en aldrei lent í slíkum veikindum líkt og nú.

„Það eru ellefu dagar síðan að tíkin mín hún Rjúpa veikist. Hún er búin að vera drullu­slöpp og með þurran hósta og litla matar­lyst og lést um fimm kíló,“ segir Jóhann Helgi Hlöð­vers­son,  ferða­þjónustu­bóndi á Hótel Vatnsholti og dýra­vinur mikill.

Um er að ræða smitandi öndunar­færa­sýkingu í hundum sem kallast í dag­legu tali „hótel­hósti“ (e. kennel cough). Mat­væla­stofnun setti í fyrra af stað sam­vinnu­verk­efni við Til­rauna­stöð Há­skólans á Keldum til að reyna að komast til botns í því hvað veldur hóstanum. Vísir hefur sent Mat­væla­stofnun fyrir­spurn vegna málsins.

Að­fram­kominn

Rjúpa var fyrsti hundur Jóhanns til þess að smitast af pestinni. Hann fór með hana til dýra­læknis sem taldi að um bráða­of­næmi gegn gras og mold væri að ræða þar sem Rjúpa er gjörn á að rífa oft upp gras­bletti. Hún fékk stera­sprautu og sýkla­lyf og braggaðist um stund.

„En svo veikjast hinir hundarnir okkar þeir Móri og Stubbur og bara virki­lega illa. Þeir fengu báðir vökva í lungun og gamli kín­verski fax­hundurinn hann Móri var svo að­fram­kominn af þessu og náttúru­lega orðinn gamall þannig að við urðum að láta hann fara núna á mánu­dag.“

Stubbur er hins vegar tekinn að braggast en að sögn Jóhanns varð Rjúpa aftur drullu­slöpp, tíu dögum eftir að ein­kennin fóru fyrst að gera vart við sig.

Jóhann segir Móra vera sárt saknað. Hér er Jóhann með Móra í fanginu í hinsta sinn þar sem hann smellti á hann síðasta kossinum.Jóhann Helgi Hlöðversson

„Þannig að við fórum aftur með hana til dýra­læknis í gær og hún fékk kok­teil af lyfjum og er strax orðin mun hressari en alltaf með þennan króníska hósta. Þetta er af­skap­lega þurr hósti og hún er enn slöpp, þannig að við þurfum að passa að of­gera henni ekki, en hún virðist vera að koma til.“

Þarf ekki nema að hitta einn hund

Jóhann segist hafa átt hunda um margra ára skeið en muni ekki til þess að þeir hafi veikst eins al­var­lega og nú. Hann segir að full á­stæða sé til þess að vara hunda­eig­endur við.

„Að vara fólk við því að vera ekki að fara á hunda­svæðin eða aðra staði þar sem margir hundar koma saman og sleppa á því á meðan þessi pest gengur yfir. Það er ekkert grín fyrir hundana að fá þetta og tekur veru­lega á þá, þó flestir fari vel út úr þessu.“

Jóhann segir að dýra­læknirinn hafi sagt sér að tölu­vert væri um til­vik nú þar sem hundar smitist af hótel­hóstanum. Hann segist vita hvar Rjúpa hafi fengið hóstann, sem dýra­læknar segja að sé bráð­smitandi. Þau hafi mætt saman á hunda­sýningu í Hafnar­firði og gengið þar um í ör­skamma stund.

„Það þarf ekki nema bara að hitta einn hund sem er veikur. Ég heyrði af því að það hefðu margir hundar veikst eftir þá sýningu, því að þetta er auð­vitað bráð­smitandi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×