Innlent

Mat­væla­stofnun rann­sakar dular­fullan hósta meðal hunda á höfuð­borgar­svæðinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hingað til hafa öll sýni sem prófuð hafa verið fyrir Covid-19 reynst neikvæð. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hingað til hafa öll sýni sem prófuð hafa verið fyrir Covid-19 reynst neikvæð. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Matvælastofnun hefur sett af stað rannsókn í samvinnu við Tilraunastöð Háskólans á Keldum til að reyna að komast til botns í því hvað veldur hósta hjá hundum sem hefur gert vart við sig á höfuðborgarsvæðinu undanfarið.

Í tilkynningu á vef MAST segir að smitandi öndunarfærasýking sé þekkt hjá hundum og kallist í daglegu tali „hótelhósti“ (e. kennel cough). Í raun sé um að ræða lýsingu á sjúkdómseinkennum í efri öndunarvegi og orsakirnar geti verið margvíslegar; bæði veirur og bakteríur. Einkennin séu hósti, útferð úr nefi og augum og í sumum tilvikum slappleiki og lystarleysi.

„Einkennunum getur svipað til þess að aðskotahlutur, t.d. flís eða strá hafi fests í hálsi hundsins,“ segir í tilkynningunni. „Öndunarfærasýkingar eru oft bráðsmitandi af því að smit getur borist með loftögnum við hósta og hnerra. Þarf því ekki beina snertingu, en auðvitað getur smit líka verið í munnvatni og útferð úr nefi og augum.“

Rétt er að leita til læknis ef hundar verða mjög slappir eða fá hækkaðan hita. Margir hundar eru bólusettir en dýralæknar hafa greint frá því að bæði bólusettir og óbólusettir virðist smitast af þeirri sýkingu sem nú er í gangi. 

Nú þegar hafi nokkrir dýralæknar látið kanna hvort um sé að ræða Covid-19 en öll sýnin hafi reynst neikvæð. Í rannsókn MAST og Tilraunastöðvarinnar verði meðal annars kannað hvort um geti veirð að ræða þekktar bakteríur, meðal annars bakteríu sem olli hósta og veikindum hjá hrossum fyrir nokkrum árum.

„Til að minnka líkur á smiti í fríska hunda er rétt að gæta smitvarna, sérstaklega forðast nálægð við hunda með einkenni og síður að vera með hunda þar sem margir aðrir hundar koma saman, eins og t.d. á vinsælum hundaviðrunarsvæðum,“ segir á vef MAST, þar sem finna má ítarlegar upplýsingar um málið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.