Innlent

Sam­skipti sín við for­stjóra HSS á­vallt á form­legu nótunum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Vísir/Einar

Heilbrigðisráðherra segir samskipti sín við forstjóra HSS ávallt hafa verið á formlegu nótunum og getur ráðherra ekki tjáð sig um ásakanir hans. Segist hann einungis hafa verið að sinna eftirlitsskyldum sínum.

Fyrir helgi greindi Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, frá því að hann hafi orðið óviðunandi framkomu af hálfu Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og vildi meina að ráðherrann hafi beitt hann óeðlilegum þrýstingi. Óskaði hann eftir áliti Umboðsmanns Alþingis vegna þessa og sagði ráðherrann hafa farið verulega út fyrir sín mörk gagnvart honum.

Heilbrigðisráðherra segir samskipti þeirra tveggja einna helst hafa verið formlegs eðlis í gegnum bréfaskrif. Hann geti ekki tjáð sig sérstaklega um ásakanir forstjórans en hann hafi einungis verið að fara eftir eftirlitsskyldum sínum í samræmi við lög um opinber fjármál. Þá hafi boðaður fundur þeirra sem var aflýst á síðustu stundu ekki snúist um framhald forstjórans í starfinu.

„Ég er bara að sinna minni skyldu, ef hann metur það svo að kröfur okkar um að útlista hvað felst í frávikum, ef honum finnst það vera einhver þrýstingur af okkur í ráðuneytinu eða mín. Það er bara mín skylda að kalla eftir þessum upplýsingum og er í samræmi við lög um opinber fjármál,“ segir Willum.

Skipunartími forstjórans rennur út eftir átta mánuði en samkvæmt lögum þarf ráðherra að tilkynna honum með sex mánaða fyrirvara hvort hann hyggist auglýsa stöðuna. Willum segist ekki hafa tekið neina ákvörðun hvað varðar framtíð forstjórans.

„Við erum bara að ræða þessi mál. Greina stöðuna. Það er sú skylda sem hvílir á okkur og það hefur komið upp einhver ágreiningur innan framkvæmdastjórnar hvernig eigi að fara í þær úrbótatillögur. Það er þá þeirra að leysa en ekki mín eða ráðuneytisins. Við förum fram á upplýsingar um stöðuna,“ segir Willum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×