Fótbolti

Kostar vel yfir sjötíu milljarða að losa 33 ára Gundogan undan nýja samningnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Börsungar ætla að sjá til þess að fáir hafi efni á því að kaupa upp samning Ilkay Gundogan.
Börsungar ætla að sjá til þess að fáir hafi efni á því að kaupa upp samning Ilkay Gundogan. Nicolò Campo/LightRocket via Getty Images

Ilkay Gundogan, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, gengur í raðir spænska stórveldisins Barcelona þegar núverandi samningur hans við City rennur út.

Greint var frá því hér á Vísi í gær að Gundogan ætlaði sér ekki að framlengja við Englandsmeistarana og mun hann þess í stað ganga í raðir Spánarmeistara Barcelona. Gundogan hefur verið lykilmaður í liði City undanfarin ár og unnið allt sem hægt er að vinna með liðinu síðan hann kom til félagsins árið 2016.

Gundogan, sem verður 33 ára gamall í haust, fer frítt frá Manchester City til Barcelona og mun skrifa undir tveggja ára samning með möguleika á árs framlengingu. Þrátt fyrir að vera að nálgast seinni hluta ferilsins ætla Börsungar þó að sjá til þess að fáir hafi efni á því að kaupa leikmanninn frá félaginu.

Ef marka má orð félagsskiptasérfræðingsins Fabrizio Romano verður kaupákvæði í samningi Gundogan og Barcelona sem mun hljóða upp á 500 milljónir evra, en það samsvarar um 74,5 milljörðum íslenskra króna.

Eins og áður segir hefur Gundogan verið algjör lykilmaður í liði Manchester City undanfarin ár og leikið stórt hlutverk í velgengni félagsins. Alls hefur hann leikið 304 leiki fyrir félagið og komið mep beinum hætti að 100 mörkum. Með liðinu hefur Gundogan fimm sinnum orðið Englandsmeistari, unnið deildarbikarinn fjórum sinnum, enska bikarinn tvisvar og Meistaradeild Evrópu einu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×