Umfjöllun og viðtöl: Kefla­­vík - Valur 1-1 | Víti í súginn hjá Val sem tapaði mikil­vægum stigum

Atli Arason skrifar
Valskonur misstu af mikilvægum stigum í toppbaráttunni.
Valskonur misstu af mikilvægum stigum í toppbaráttunni. Vísir/Vilhelm

Keflavík og Valur gerðu 1-1 jafntefli í 9. umferð Bestu-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld í hörku spennandi leik sem hefði getað fallið öðru hvoru megin. Valskonur misstu þó af mikilvægum stigum í toppbaráttunni, sérstaklega eftir vítaspyrna þeirra fór forgörðum á 82. mínútu.

Leikurinn fór rólega af stað en það var ekki fyrr en á 15. mínútu leiksins sem fyrsta alvöru marktilraunin átti sér stað. Þá fékk Linli Tu, leikmaður Keflavíkur, boltann eftir klaufagang í vörn Vals en skot Linli skoppar af stönginni og þaðan í burtu.

Eftir nokkrar tilraunir á báða bóga voru það Keflvíkingar sem komust verðskuldað yfir á 38. mínútu en þar var aftur á ferðinni markahæsti leikmaður Keflavíkur, Linli Tu, með sitt fjórða mark á tímabilinu. Linli náði þá að pota boltanum fram hjá Fanney í marki Vals, eftir fyrirgjöf frá Söndru Voitane af hægri væng.

Heimakonur fóru sanngjarnt með 1-0 forystu inn í leikhléið en Keflvíkingar réðu vel við Íslandsmeistarana í fyrri hálfleik, sem átti þó allt eftir að breytast í þeim síðari.

Skömmu eftir að Bríet dómari flautaði síðari hálfleik á þá átti Dröfn Einarsdóttir, leikmaður Keflavíkur, frábæra marktilraun sem small í þverslánni og Valskonur sluppu með skrekkinn. 

Einungis tveimur mínútum eftir sláar skot Drafnar, þá jöfnuðu gestirnir metin. Vegna klaufagangs í vörn Keflavíkur hrekkur boltinn af Þórdísi Elvu, leikmanni Vals og beint í hlaupaleið samherja hennar, Bryndísar Örnu, sem átti ekki í miklum vandræðum með að rúlla boltanum snyrtilega í hornið á marki Keflavíkur. Var þetta 7. mark Bryndísar í sumar og styrkti hún því stöðu sína sem markahæsti leikmaður deildarinnar.

Einungis nokkrum mínútum síðar var Bryndís borin af velli vegna meiðsla sem hún varð fyrir eftir samstuð við Madison Wolfbauer, leikmann Keflavíkur. Meiðsli sem gætu haldið Bryndísi frá leikvellinum í einhvern tíma samkvæmt þjálfara hennar.

Eftir jöfnunarmark Vals voru þær töluvert líklegri að klára leikinn. Það varð næstum því raunin þegar Aníta Lind, leikmaður Keflavíkur, togaði Ásdísi Karen, leikmann Vals, niður inn í vítateig Keflavíkur og vítaspyrna dæmd.

Fanndís Friðriksdóttir steig á punktinn og ætlaði að spyrna boltanum beint á mitt markið. Spyrna Fanndísar var þó aðeins of föst og boltinn endaði á því að fara yfir markið og út á götu bak við völlinn. Dauðafæri fyrir Valskonur sem hefðu með sigri getað náð fimm stiga forskoti á toppi deildarinnar.

Bæði lið fengu hálffæri til að klára leikinn það sem eftir lifði leiks en allt kom fyrir ekki og lokatölur urðu 1-1 í flottum fótboltaleik í Keflavík.

Afhverju varð jafntefli?

Þetta hefði alveg getað dottið öðru hvoru megin í kvöld. Keflvíkingar voru betri í fyrri hálfleik en Valskonur voru betri í þeim síðari. Líklega var jafnteflið sanngjörn niðurstaða þegar uppi er staðið en bæði lið töldu sig eiga sigurinn skilið.

Hverjar stóðu upp úr?

Linli Tu var spræk í framlínu Keflavíkur og skoraði markið sem skipti máli fyrir liðið. Hin fimmtán ára Alma Rós var baráttuglöð á miðju Keflavíkur og Madison Wolfbauer var eins og klettur í vörninni. Allt lið Keflavíkur á í raun hrós skilið en fram að þessum leik hafði Keflavík tapað 32 af 36 viðureignum í öllum keppnum á móti Val í gegnum tíðina. Stigið er því mun þýðingarmeira fyrir Keflavíkinga.

Hjá Valskonum þótti Ásdís Karen Halldórsdóttir standa upp úr en hún var nær alltaf ógnandi með boltann við lappirnar og með flottu knattraki nældi hún í vítið, sem næstum því færði Val sigurinn.

Hvað gerist næst?

Keflavík tekur á móti Tindastól næstkomandi mánudag á meðan Valur fer í heimsókn til Breiðabliks degi fyrr.

„Við gáfum Val allskonar vandræði“

Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur.Vísir/Hulda Margrét

Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, var svekktur með úrslitin í kvöld en hann taldi sitt lið geta unnið Íslandsmeistarana.

„Fyrir leikinn hefðum við alltaf þegið jafntefli en eftir leikinn þá erum við svekkt með úrslitin því mér fannst að við áttum að vera komnar með tveggja marka forystu áður en Valur jafnar leikinn. Við gáfum Val allskonar vandræði en það er samt gott að ná í stig gegn jafn sterku liði og Valur er,“ sagði Glenn í viðtali við Vísi eftir leik.

„Við vissum að þær myndu kasta öllu á okkur í síðari hálfleik. Þær fjölguðu í sókninni og voru mjög ofarlega á vellinum. Við vissum að í leikhlé, verandi 1-0 undir, að við þyrftum að nota alla okkar orku til að verjast gegn þeim. Ég er ánægður með stelpurnar, þær börðust eins og ljón og meira en það. Heilt yfir var þetta flott liðs frammistaða,“ bæti hann við.

Keflavík hefur aldrei unnið deildarleik gegn Val en Glenn telur ekki langt í land að standa jafnfætis með bestu liðum landsins.

„Við þurfum að breyta menningunni og trúa meira á okkur sjálfar, trúa því að við getum unnið þessi bestu lið og trúa því að við getum mætt þeim alls staðar á vellinum. Við erum að nálgast þann punkt og við munum komast yfir þessa hraðahindrun bráðlega,“ svaraði Glenn, aðspurður út í hvað vantaði til þess að sigra Val í kvöld.

Framundan er leikur gegn Tindastól, sem er afar mikilvægur leikur fyrir Keflavík en það munar einungis fjórum stigum á liðunum. Keflavík er í 6. sæti en Tindastóll í því 8.

„Það eru svo margir jákvæðir hlutir sem við getum tekið úr þessum leik fyrir þann næsta en við verðum að halda fókus. Við getum heldur ekki vanmetið neinn því allir geta unnið alla eins og deildin er að spilast í dag. Við verðum að mæta í alla leiki eins og það sé okkar síðasti,“ sagði Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira