Erlent

Leita á meðan vonin lifir

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérfræðingar höfðu áhyggjur af Títan fyrir nokkrum árum.
Sérfræðingar höfðu áhyggjur af Títan fyrir nokkrum árum. AP/OceanGate Expeditions

Leitin að kafbátnum Titan hefur enn engan árangur borið. Forsvarsmenn leitarinnar segja hana flókna og að áhersla sé lögð á að finna uppruna hljóðs sem heyrðist í gærkvöldi.

Verið var að kafa bátnum að flaki skipsins Titanic sem liggur á tæplega fjögurra kílómetra dýpi um sex hundruð kílómetra frá ströndum Nýfundnalands. Samband við kafbátinn slitnaði á sunnudagsmorgun en fimm manns voru um borð. Talið er að súrefnið um borð í kafbátnum gæti í mesta lagi dugað fram á fimmtudagsmorgun.

Sjá einnig: Í kapphlaupi við tímann á miðju Atlantshafi

Áhöfn kanadískrar flugvélar heyrði í gær hljóð sem hefur verið lýst sem bankhljóði og mun það hafa heyrst á um hálftíma fresti í minnst fjórar klukkustundir. Hljóðið heyrðist með sérstakri bauju sem varpað er úr flugvélum og notaðar eru til að leita að kafbátum.

Sjá einnig: Hafa numið hljóð neðan­sjávar í leitinni að Titan

Aðmírállinn John Mauger, frá Strandgæslu Bandaríkjanna, sem leiðir leitina, segir að finna megi mjög marga málmhluti við flak Titanic, sem gætu gefið frá sér sambærilegt hljóð. Uppruni hljóðsins sé enn óljós.

Mauger sagði einnig, samkvæmt frétt BBC, að leitinni yrði haldið áfram svo lengi sem talinn væri möguleiki á því að mennirnir um borð í kafbátnum gætu verið á lífi.

Hér að neðan má sjá hvernig leitað hefur verið.

Höfðu áhyggjur af kafbátnum

Kafbáturinn sem er týndur er í eigu fyrirtækisins OceanGate Expeditions. New York Times sagði frá því á dögunum að innan fyrirtækisins hefðu menn áhyggjur af bátnum og sögðu hann þurfa mun meiri vinnu og prófanir. Það var árið 2018 en þá skrifaði einn af yfirmönnum OceanGate harðorðaða skýrslu um stöðu kafbátsins.

Aðrir sérfræðingar slógu á svipaða strengi í bréfi til Stockton Rush, yfirmanns OceanGate, og sögðu varhugavert framferði fyrirtækisins gæti haft alvarlegar afleiðingar. Kvörtunin sneri að því að Rush neitaði þá að láta sérfræðinga skoða bátinn og votta hann.

Rush er einn af þeim fimm sem týndust með kafbátnum. Einnig eru breski auðjöfurinn Hamish Harding um borð, auk feðganna Shahzada Dawood og Suleman, sem eru úr einni auðugustu fjölskyldu Pakistan og hinn 73 ára gamli Paul-Henry Nargeolet, sem er franskur landkönnuður.

Hér að neðan má sjá viðtal Reuters við tvo menn sem hafa farið með kafbátnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×