Fótbolti

Chelsea selur fjóra til Sádi-Arabíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þeir Edouard Mendy, N'Golo Kante, Hakim Ziyech og Kalidou Koulibaly eru allir á leið frá Chelsea til liða í Sádi-Arabíu.
Þeir Edouard Mendy, N'Golo Kante, Hakim Ziyech og Kalidou Koulibaly eru allir á leið frá Chelsea til liða í Sádi-Arabíu. Vísir/Getty

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er búið að selja einn af leikmönnum sínum til liðs í sádiarabísku deildinni og þrír aðrir eru að fara sömu leið. Þá hafa Úlfarnir selt einn sinn besta mann til Sádi-Arabíu.

Það eru þeir N'Golo Kante, Edouard Mendy, Hakim Ziyech og Kalidou Koulibaly sem fara frá Lundúnaliðinu til Sádi-Arabíu, en allir voru þeir í heldur litlum hlutverkum fyrir liðið á síðasta tímabili.

Hinn 32 ára gamli N'Golo Kante hefur reyndar verið í lykilhlutverki fyrir Chelsea undanfarin ár, en meiðsli hafa sett strik í reikninginn og hann kom aðeins við sögu í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Kante er genginn í raðir Al-Ittihad og verður þar samherji landa síns sem gekk í raðir félagsins á dögunum, Karim Benzema.

Þeir Mendy, Ziyech og Koulibaly eru ekki formlega gengnir í raðir liða í Sádi-Arabíu, en helstu félagsskiptasérfræðingar heims segja þó að það sé í raun bara formsatriði að bíða eftir tilkynningum frá félögunum.

Hakim Ziyech er á leið til Al-Nassr þar sem hann verður liðsfélagi Íslandsvinarins Cristiano Ronaldo, markvörðurinn Edouard Mendy er á leið til Al-Ahli og Kalidou Koulibaly er á leið til Al-Hilal.

Ziyech kom við sögu í 18 deildarleikjum hjá Chelsea á síðasta tímabili og skoraði þrjú mörk á meðan markvörðurinn Edouard Mendy lék tíu leiki áður en hann missti sæti sitt í byrjunarliðinu í hendur Kepa Arrizabalaga.

Koulibaly lék 23 deildarleiki með Chelsea á síðasta tímabili, en hann gekk í raðir félagsins síðasta sumar eftir að liðið hafði lengi reynt að krækja í hann frá Napoli.

Þá hafa Úlfarnir misst einn af sínum bestu mönnum en portúgalski miðjumaðurinn Rúben Neves er farinn til Sádi-Arabíu fyrir fúlgur fjár. Tilkynnt var um vistaskipti hins 26 ára gamal Neves skömmu áður en hann steig fæti inn á Laugardalsvöll og hjálpaði Portúgal að vinna 1-0 sigur.

Neves hafði verið orðaður við lið á borð við Barcelona en á endanum heillaði gylliboð Sádi-Arabíu meira en að halda áfram að spila í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×