Innlent

Lokun rækju­vinnslunnar högg af stærri gerðinni

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar.
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar. Vísir/Sigurjón

Sveitarstjóri Strandabyggðar segir lokun rækjuvinnslunnar Hólmadrangs á Hólmavík högg af stærri gerðinni. Tuttugu starfsmönnum verður sagt upp.

„En við erum vön ýmsu hér á Hólmavík og Strandabyggð og munum reyna að vinna úr þessari stöðu eins og hægt er með fulltrúum eigenda. En núna snýst þetta núna um að huga að starfsfólki og þeirra framtíð. Það er vert að þakka því starfsfólki fyrir góða vinnu og mikla hollustu í þeirra starfi,“ segir Þorgeir Pálsson sveitastjóri.

Greint var frá lokuninni í tilkynningu frá Samherja en vinnslan var rekin af Snæfelli, dótturfélagi þess. Snæfell tók yfir rekstur rækjuvinnslunnar árið 2019 og kemur fram að rekstur Hólmadrangs hafi frá þeim tíma verið erfiður. Nam tap síðasta árs 205 milljónum samkvæmt ársreikningi en skortur á frystigeymslum og flutningskostnaður eru sögð hafa haft áhrif á reksturinn.

Spurður hvort lokunin hafi verið viðbúin segir Þorgeir:

„Nei, í rauninni ekki. Hitt er annað mál að markaðir hafa verið erfiðir, við sjáum það bara á vinnsludögum. En nei, ég átti ekki von á þessu, þó það séu auðvitað sveiflur í öllum rekstri,“ segir hann.

Ekkert sé uppi á borði með nýtingu húss rækjuvinnslunnar í náinni framtíð. „Við erum bara að melta þessar fréttir núna,“ segir Þorgeir sem kveðst þó bjartsýnn á framhaldið. 

Að hans sögn lítur sumarið á Hólmavík lítur einnig mjög vel út.

„Við gerum ráð fyrir verulegri traffík á tjaldsvæði sem tekur við fullt af fólki. Hér er alls konar afþreying og veitingahús, hvalaskoðun og svo framvegis. Þannig við búumst bara við mjög massívu sumri,“ segir Þorgeir að lokum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×