Sturgeon var handtekin klukkan 10:09 að staðartíma í morgun og sleppt klukkan 17:24, að því er segir í frétt breska ríkissjónvarpsins um málið.
„Ég er ekki í neinum vafa um það að ég er saklaus af öllu misferli,“ segir í yfirlýsingu sem Sturgeon birti á samfélagsmiðlinum Twitter, skömmu eftir að henni var sleppt.
STATEMENT pic.twitter.com/MlpWJGzwi0
— Nicola Sturgeon (@NicolaSturgeon) June 11, 2023
Hún segist hafa fengið áfall þegar hún var handtekin og að það hafi reynt mikið á hana. Þá þakkar hún öllum þeim sem hafa stutt hana undanfarnar vikur og fullyrðir að hún myndi aldrei gera nokkuð, sem er til þess fallið að skaða skosku þjóðina eða skoska þjóðarflokkinn.
Mikið hefur gengið á hjá Sturgeon undanfarið. Húsleit var gerð á heimili hennar þann 5. apríl síðastliðinn, og einnig var gerð húsleit í höfuðstöðvum flokksins í Edinborg.
Peter Murrell, eiginmaður Sturgeon og fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, var handtekinn en síðar látinn laus án ákæru. Þá var Colin Beattie, gjaldkeri flokksins, einnig handtekinn í tengslum við sömu rannsókn lögreglu en honum var sleppt að lokinni skýrslutöku.