Fótbolti

Fernando Tor­res hámaði í sig súpu í Frið­heimum

Árni Sæberg skrifar
Tryggvi Örn ásamt sjálfum Fernando Torres.
Tryggvi Örn ásamt sjálfum Fernando Torres. Aðsend

Knattspyrnugoðsögnin Fernando Torres er á ferð um landið. Liverpoolmaður sem dýrkar hann og dáir hitti kappann í dag en beið með að nálgast hann þangað til hann var búinn að borða.

Tryggvi Örn Gunnarsson, starfsmaður í þróun hjá Kerecis, var ásamt nokkrum vinnufélögum sínum í gróður- og veitingahúsinu Friðheimum í Reykholti þegar hann kom auga á einn af sínum uppáhaldsliverpoolleikmönnum, sjálfan Fernando Torres.

Tryggvi Örn segist hafa ákveðið að bíða þangað til kappinn kláraði að borða áður en hann gaf sig á tal við hann.

„Hann var svo lengi að borða. Hann borðaði skál eftir skál [af tómatsúpu] og var með fullt borð af mat,“ segir Tryggvi Örn í smtali við Vísi.

Þegar hann svo loksins vatt sér að Torres þóttist kappinn ekkert kannast við að vera þekktur, sennilega í von um að ekki myndi myndast röð af vongóðum Púlurum í leit að mynd. Á endanum samþykkti hann þó að stilla sér upp við hlið Tryggva Arnar.

Torres gerði garðinn helst frægan með Liverpool en fór síðan til Chelsea, ákvörðun sem margir Púlarar hafa ekki enn fyrirgefið honum.

Tryggvi Örn segist þó ekki erfa félagskiptin við Torres, enda hafi hann lítið getað fyrir þá bláklæddu. „Ég hefði samt viljað að fimmtíu milljónunum [punda] hefði verið varið í einhvern annan en Andy Carroll,“ segir Tryggvi Örn.

Torres lauk ferlinum svo í Japan þar sem hann lék með Sagan Tosu í eitt ár. Nú starfar hann sem þjálfari U-19 liðs Atletico Madrid í heimalandinu, þar sem hann hóf ferilinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.