Erlent

Lítil pilla gefur Assad mikil völd

Samúel Karl Ólason skrifar
Mest allt Captagon í heiminum er framleitt í Sýrlandi og Assad og bandamenn hans hafa verið sakaðir um að hafa beina aðkomu að framleiðslunni.
Mest allt Captagon í heiminum er framleitt í Sýrlandi og Assad og bandamenn hans hafa verið sakaðir um að hafa beina aðkomu að framleiðslunni. AP/SANA

Ein helsta ástæða þess að nágrannar Sýrlands eru tilbúnir til að hleypa Bashar al-Assad, forseta landsins, inn úr kuldanum snýr að flæði fíkniefna frá Sýrlandi. Ríkið framleiðir og leyfir framleiðslu gífurlegs magns af Captagon-amfetamínpillum en hundruð milljóna slíkra pilla hefur verið smyglað til Jórdaníu, Írak, Sádi-Arabíu og annara ríkja Mið-Austurlanda.

Þessum fíkniefnum hafa fylgt mikil vandræði og yfirvöld þessara ríkja vilja takmarka flæði þeirra og það hefur gefið Assad mikið vogarafl gegn þeim.

Stór meirihluti þessara lyfja er framleiddur í Sýrlandi og áætla sérfræðingar sem blaðamenn AP fréttaveitunnar ræddu við að þessi framleiðsla sé gífurlega arðbær fyrir ríkisstjórn Assad. Yfirvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrópusambandinu hafa sakað Assad og bandamenn hans, auk Hezbollah-hryðjuverkasamtökin, um að bera ábyrgð á framleiðslunni.

Tekjurnar af fíkniefnaframleiðslunni eru sagðar hafa haldið lífi í ríkisstjórn Assad, á sama tíma og hagkerfi Sýrlands hafi beðið verulega hnekki vegna langvarandi borgarastyrjaldar þar sem reynt var að velta honum úr sessi.

Síðar meir sáu Assad og hans bandamenn Captagon pillurnar í nýju ljósi, sem pólitísk tól.

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, og Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hittust í síðasta mánuði.AP/Yfirvöld Sádi-Arabíu

Greinendur telja að með því að lofa að draga úr framleiðslunni vonist Assad til þess að fá frekari fjármuni til endurbyggingar í Sýrlandi, opna á opinber samskipti við önnur ríki og mögulega losna við viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir.

Í viðræðum Assad-liða við aðrar ríkisstjórnir í Mið-Austurlöndum hefur helsta krafa þeirra alltaf verið að draga úr framleiðslu fíkniefnanna í staðinn fyrir frekari opinber samskipti.

Gerðu árás á þekktan framleiðanda

Sýrlandi var hleypt aftur inn í Arababandalagið í síðasta mánuði, eftir að því var vísað út árið 2011 vegna grimmilegra viðbragða Assad við mótmælum í Sýrlandi. Skömmu eftir það var gerð loftárás á heimili vel þekkts fíkniefnaframleiðenda í suðurhluta Sýrlands. Hann hét Merhi al-Ramthan en hann, eiginkona hans og sex börn þeirra dóu í árásinni.

Árás var einnig gerð í borginni Daraa, nærri landamærum Jórdaníu, og er talið að hún hafi verið gerð á Captagon-verksmiðju.

Jórdanar eru taldir hafa gert árásina og það með leyfi ríkisstjórnar Assad. Fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu Jórdaníu sagði í samtali við AP að Assad hefði lofað því að hann myndi láta af stuðningi sínum við og þátttöku í framleiðslu Captagon-pilla. Þá hafi hann veitt Jórdönum upplýsingar um al-Ramthan og gefið leyfi fyrir árásinni á hann.

Þá segir AP frá því að í aðdraganda þess að Sýrlandi var hleypt inn í Arababandalagið hafi erindrekar aðildarríkjanna komið saman í Jórdaínu. Þar átti að tala um mögulegar friðarviðræður í Sýrlandi og hvernig sýrlenskir flóttamenn gætu snúið aftur til síns heima. Umræðan mun þó að mestu hafa snúist um Captagon.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×