Fótbolti

Moyes dansaði pabbadans eftir langþráðan titil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Moyes í miðri sveiflu.
David Moyes í miðri sveiflu.

Þegar menn vinna titil í 1.097 leik á ferlinum verða þeir að fagna almennilega og það gerði David Moyes þegar West Ham United vann Sambandsdeild Evrópu í gær.

Mark Jarrods Bowen á ellefu stundu tryggði West Ham sigur á Fiorentina, 1-2, í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar í Prag í gær.

Þetta var fyrsti titill West Ham í 43 ár og fyrsti titilinn sem Moyes vinnur á löngum ferli. Moyes fagnaði sigurmarki Bowens og ekki var fögnuðurinn minni inni í búningsklefa Hamranna.

Þar dansaði Moyes og dillaði sér við lagið „I'm Gonna Be (500 Miles)“ með The Proclaimers við mikinn fögnuð leikmanna West Ham sem höfðu gaman að þessu uppátæki stjórans síns. Á blaðamannafundi eftir leikinn talaði Moyes um pabbadans sem er ágætis lýsing á danstöktum hans.

Öll mörkin í leiknum í Prag í gær komu í seinni hálfleik. Saïd Benrahma kom West Ham yfir á 62. mínútu en Gaicomo Bonaventura jafnaði fimm mínútum seinna.

Á lokamínútu leiksins slapp Bowen svo inn fyrir vörn Fiorentina og skoraði framhjá Pietro Terracciano í marki Fiorentina og tryggði Hömrunum fyrsta titil sinn síðan 1980.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×