Fótbolti

Segir Albert hæfileikaríkasta leikmann landsliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert Guðmundsson hefur leikið 33 landsleiki og skorað sex mörk.
Albert Guðmundsson hefur leikið 33 landsleiki og skorað sex mörk. vísir/vilhelm

Åge Hareide segir að Albert Guðmundsson sé líklegast hæfileikaríkasti leikmaðurinn í íslenska fótboltalandsliðinu.

Albert Guðmundsson var valinn í fyrsta landsliðshóp Hareides. Hann snýr þar með aftur í landsliðið eftir árs fjarveru en þeir Arnar Þór Viðarsson áttu ekki skap saman.

Á blaðamannafundi í dag sagði Hareide að Albert hefði spilað vel með Genoa í vetur og hann hafi séð góða takta frá honum.

„Albert hefur átt gott tímabil með Genoa. Ég hef séð mikið af honum á WyScout en ekki farið á leik. Ég hef talað við leikmann sem spilaði með honum hjá Genoa, Leo Østigård sem er núna hjá Genoa. Albert hefur gert vel og kláraði tímabilið frábærlega þegar hann skoraði í síðasta leiknum,“ sagði Hareide.

Hareide sagði jafnframt að Albert væri eflaust flinkasti leikmaður íslenska liðsins og hann ætlaði honum stórt hlutverk í komandi landsleikjum.

„Hvað tæknilega getu varðar er hann besti leikmaður liðsins. Hann getur farið í báðar áttir, klárar færin sín vel og er með markanef. Hann getur haft góð og mikil áhrif á liðið. Það er mikilvægt að finna hlutverk sem hentar honum,“ sagði Norðmaðurinn.

Ísland mætir Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM 2024 17. og 20. júní. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×