Innlent

Lög­regla kölluð til vegna deilna um flokkun í grenndar­gáma

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til vegna ágreinings nokkurra einstaklinga um hvers konar sorpi mætti henda í endurvinnslugáma. Atvikið átti sér stað í hverfi 104 í Reykjavík og var „leyst með samtali“.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglu þar sem greinir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar.

Þar segir ennfremur að tilkynnt hafi verið um vinnuslys í Hafnarfirði þar sem maður hafði fengið skurð á höfuðið. Auk þess þurfti lögregla að hafa afskipti af grunsamlegum mannaferðum í Hafnarfirði.

Lögregla hafði einnig afskipti af nokkrum ökumönnum sem reyndust meðal annars aka án ökuréttinda eða undir áhrifum fíkniefna. Þá voru sjö ökumenn stöðvaðir þar sem þeir óku um á nagladekkjum og eiga þeir von á sekt.

Þá var tilkynnt um árekstur og mann sem hafði valdið slysinu og hafði skilið bíl sinn eftir og gengið af vettvangi. Sá fannst skömmu síðar og var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar. Hann er grunaður um ölvun við akstur og var bíllinn fluttur á brott með kranabíl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×