Innlent

Fjölda­dauði fugla á Faxa­flóa

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Ritur eru meðal þeirra fugla sem hafa fundist, þessar dóu í fyrra en ekki úr fuglaflensu.
Ritur eru meðal þeirra fugla sem hafa fundist, þessar dóu í fyrra en ekki úr fuglaflensu. Mynd/aðsend

Óútskýrður fjöldadauði fugla á Faxaflóa veldur vísindamönnum áhyggjum. Hundruð fugla hafa fundist dauðir í fjörum, jafnvel á stöðum þar sem þeir eru ekki vanir að halda sig.

Fuglarnir hafa verið að finnast á gjörvöllu Faxaflóasvæðinu. Mest hefur verið vart við dauða lunda og ritur en að sögn líffræðings er ekki hægt að fullyrða neitt um hvers vegna fuglarnir eru að deyja fyrr en búið er að taka sýni, en það er í höndum MAST. Talsvert var um dauðar ritur á norðurlandi í fyrra en þá var orsökin ekki fuglaflensa, heldur líklega einhvers konar sveppasýking.

Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur var í Kollafirðinum síðastliðin fimmtudag.

„Ég var hérna á fimmtudaginn síðdegis við fuglaathuganir í Kollafirði. Við vorum innst í Kollafirði þar sem fólk gengur á Esjuna og þar urðum við varir við lunda sem voru á sundi fyrir utan, frekar slapplegir að sjá og svo þegar við fórum að rýna í fjöruna sáum við á þriðja tug dauðra lunda og einn uppi á vegi. Svo sáum við lifandi fugla sem voru slappir og voru að synda upp í fjöru til að deyja.“

Ekki sé ljóst hvað sé að gerast en fugladauðinn virðist dreifa sér um allan Faxaflóa.

„Þetta virðist þjaka sjófugla, súlan fór mjög illa út úr fuglaflensu í fyrrasumar. Kerfið þarf að taka sig á og spíta í lófana og gera eitthvað í þessu. Skoða þetta betur.“

Það sé mjög óvenjulegt að sjá lunda á þessum slóðum.

„Maður sér lunda sjaldan þarna. Það er lundavarp í Andríðsey sem er við Kjalarnesið, en það er það næsta og þeir eru ekkert að þvælast inn á firði neitt. Það var mjög sérkennilegt og dramatískt að sjá þetta.“

Sagði Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur í samtali við fréttastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×