Fótbolti

Milner fékk vítapunktinn í kveðjugjöf

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
James Milner fékk þennan fína vítapunkt í kveðjugjöf frá vallarstarfsmönnum Liverpool.
James Milner fékk þennan fína vítapunkt í kveðjugjöf frá vallarstarfsmönnum Liverpool. Vísir/Getty

Eftir átta ára veru hjá Liverpool er James Milner á leið frá félaginu. Til að þakka honum fyrir þjónustu sína við félagið gáfu vallarstarfsmenn honum eitt stykki vítapunkt í kveðjugjöf.

Milner gekk í raðir Liverpool árið 2015 frá Manchester City. Síðan þá hefur hann leikið 229 deildarleiki fyrir félagið, en hann tilkynnti það á dögunum að yfirstandandi tímabil yrði hans síðasta með félaginu.

Þessi 37 ára gamli leikmaður hefur því þegar leikið sinn seinasta heimaleik fyrir félagið. Liðið á þó einn leik eftir í deildinni; útileik gegn Southampton næstkomandi sunnudag.

Þrátt fyrir að vera ekki beint mesti markaskorari ensku úrvalsdeildarinnar er James Milner þó afar örugg vítaskytta. Á ferli sínum hefur hann tekið 35 spyrnur og 30 þeirra hafa ratað í netið, en það gerir rétt tæplega 86 prósent vítanýtingu.

Það má því ætla að leikmaðurinn hafi verið duglegur að æfa vítaspyrnur og það hefur greinilega eitthvað pirrað vallarstarfsmenn Liverpool. Nú þegar Milner er á förum frá félaginu ákváðu þeir að gefa honum vítapunkt í kveðjugjöf og með fylgdi kort sem sagði að nú væri komið að honum að sjá um punktinn.

„Eftir átta ár af því að þú sért að eyðilegga vítapunktana okkar er nú komið að því að þú sjáir um einn sjálfur,“ segir á kortinu áður en leikmanninum er óskað velfarnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×