Enski boltinn

Dótakall af Englinum í Alkmaar boðinn upp á eBay

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dótakallinn af Knollsy.
Dótakallinn af Knollsy.

Búið er að gera dótakall af stuðningsmanni West Ham United sem varði fjölskyldur leikmanna félagsins fyrir ólátabelgjum úr röðum stuðningsmanna AZ Alkmaar.

Hinn 58 ára Chris Knoll, eða „Knollsy“, hefur verið kallaður „Engilinn í Alkmaar“ eftir að hann kom í veg fyrir að fótboltabullur réðust á maka og börn leikmanna West Ham í seinni undanúrslitaleik liðsins gegn AZ í Sambandsdeild Evrópu.

Knollsy er orðin hetja í augum stuðningsmanna West Ham og nú er búið að gera dótakall, eins konar aksjón kall, af honum. Hann er til sölu á eBay og kostar skildinginn. Hæsta tilboðið í hann er 5.100 pund. Hægt er að skoða kallinn með því að smella hér. Uppboðinu á dótakallinum lýkur seinna í dag.

Dótakallinn er í sömu fötum og Knollsy var í þegar hann varði fjölskyldur leikmanna West Ham fyrir bullunum í Alkmaar og með steytta hnefa. Skyrtan hans rifnaði í átökunum og Knollsy fékk glóðarauga.

Á næsta heimaleik West Ham, gegn Leeds United, var Knollsy kallaður upp á Ólympíuleikvanginum í London og hann fær gefins miða á úrslitaleik Sambandsdeildarinnar þar sem Hamrarnir mæta Fiorentina frá Ítalíu.

Þetta er fyrsti úrslitaleikur West Ham í Evrópukeppni í 47 ár og Knollsy var að vonum ánægður með miðann á leikinn.

„Ég var í vinnu þegar ég fékk símtalið. Ég grét næstum því. Ég var svo glaður og ánægður,“ sagði Knollsy sem getur vonandi horft á leikinn á Fortuna Arena í Prag 7. júní næstkomandi í rólegheitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×