Innlent

Veðrið riðlar flug­um­ferð á Kefla­víkur­flug­velli

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Tenerife flugi Play hefur verið flýtt um fjóra tíma á morgun.
Tenerife flugi Play hefur verið flýtt um fjóra tíma á morgun. Vísir/Vilhelm

Einu flugi hefur verið flýtt vegna veðursins sem spáð er á morgun. Farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með spám og tilkynningum flugfélaganna.

„Við erum með sautján flug til og frá Keflavíkurflugvelli á morgun. Af þeim erum við búin að flýta einni brottför, sem er Tenerife flugið okkar,“ segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi flugfélagsins Play. Umrædd vél átti að fara í loftið klukkan 14:00 en ákveðið hefur verið að flýta því til klukkan 10:00 vegna hinnar djúpu lægðar sem gengur yfir á morgun og aðra nótt.

„Við erum með seinniparts ferðirnar til skoðunar sem eru fimm talsins,“ segir Birgir og hvetur farþega flugfélagsins að fylgjast vel með stöðunni.

Fylgjast vel með

Í sama streng tekur Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Segir hún að búast megi við truflunum vegna lægðarinnar.

„Farþegar okkar mega búast við einhverjum töfum á morgun. Við hvetjum fólk til þess að fylgjast vel með,“ segir Ásdís. Icelandair hefur þó enn sem komið er ekki fært neinar flugferðir til né fellt þær niður.

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir í öllum landshlutum vegna vinds nema Austurlandi á morgun. Hinar fyrstu taka gildi klukkan 6:00 og gilda til klukkan 6:00 að morgni miðvikudags. Búast má við hagli, slydduéljum og snörpum vindhviðum við fjöll.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×