Enski boltinn

Spurs fyllir í Slot(t)ið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arne Slot lyftir hollenska meistarabikarnum.
Arne Slot lyftir hollenska meistarabikarnum. getty/Geert van Erven

Margt bendir til þess að Arne Slot, knattspyrnustjóri Hollandsmeistara Feyenoord, taki við Tottenham.

Tottenham hefur verið í stjóraleit síðan Antonio Conte hætti hjá félaginu í mars. Cristian Stellini stýrði Spurs í nokkrum leikjum áður en hann var látinn fara og Ryan Mason tók við liðinu út tímabilið.

Samkvæmt De Telegraaf hefur Slot áhuga á að taka við Tottenham og viðræður hans og félagsins standa yfir.

Slot kostar þó skildinginn því Spurs þarf að borga riftunarverð í samningi hans til að fá hann. Það hljóðar upp á sex milljónir punda.

Slot stýrði AZ Alkmaar í rúmt ár áður en hann tók við Feyenoord sumarið 2021. Á fyrsta tímabili sínu með liðið kom hann því í úrslit Sambandsdeildar Evrópu og á þessu tímabili varð Feyenoord svo hollenskur meistari.

Tottenham er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið tapaði fyrir Brentford, 1-3, á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×