Erlent

Hol­mes sleppur ekki við fangelsið og þarf að greiða háar bætur

Kjartan Kjartansson skrifar
Elizabeth Holmes, stofnandi Theranos, í réttarsal í San José í Kaliforníu í október.
Elizabeth Holmes, stofnandi Theranos, í réttarsal í San José í Kaliforníu í október. AP/Jeff Chiu

Bandarískur áfrýjunardómstóll hafnaði kröfu Elizabeth Holmes, stofnanda fallna blóðprufufyrirtækisins Theranos, um að fá að ganga laus gegn tryggingu á meðan hún áfrýjar fangelsisdómi sínum í gær. Holmes og meðstjórnandi hennar þurfa að greiða milljarða króna í miskabætur.

Holmes hlaut ellefu ára og þriggja mánaða fangelsisdóm fyrir að blekkja fjárfesta Theranos í fyrra. Fyrirtækið hélt því fram að það byggi yfir byltingarkenndri tækni sem gerði því kleift að greina hundruð sjúkdóma og kvilla með einum einasta blóðdropa. Lítil innistæða var fyrir þeim fullyrðingum. Theranos varð gjaldþrota eftir að bandarískar eftirlitsstofnanir byrjuðu að fara ofan í saumana á rekstri fyrirtækisins.

Tveimur dögum áður en Holmes átti að hefja afplánun í apríl lagði hún fram kröfu um að hún fengi að ganga laus á meðan hún áfrýjar dómnum. Áfrýjunardómstóllinn hafnaði kröfunni í gær. Dómarinn í máli hennar þarf nú að ákveða hvenær hún byrjar afplánun sína, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hann hafði áður mælt með því að Holmes afplánaði í kvennafangelsi í Texas. AP-fréttastofan segir ekki ljóst hvort að fangelsismálayfirvöld hafi tekið það til greina.

Rupert Murdoch var einn vellauðugra fjárfesta sem fóru flatt á að leggja traust sitt og trúnað á Elizabeth Holmes.Vísir/Getty

Þurfa að greiða Rupert Murdoch og apótekakeðju milljarða

Sami dómari í Kaliforníu gerði Holmes og Ramesh „Sunny“ Balwani, forseta Theranos og fyrrverandi ástmanni hennar, að greiða fórnarlömbum blekkinga þeirra 452 milljónir dollara í bætur, jafnvirði rúmra 63 milljarða íslenskra króna. Þau voru talin jafnábyrg fyrir upphæðinni.

Á meðal þeirra sem þau þurfa að greiða er Rupert Murdoch, ástralski fjölmiðlakóngurinn, sem lagði mikið fé í Theranos. Þau skulda honum 125 milljónir dollara, jafnvirði meira en 17,5 milljarða króna, að sögn AP. Þá þurfa þau að greiða lyfjaverslanakeðjunni Walgreens fjörtíu milljónir dollara, rúma 5,6 milljarða króna, en fyrirtækið gerði samning við Theranos um að nota blóðgreiningartæki þess í verslunum.

Bæði Holmes og Balwani héldu því fram fyrir dómi að þau væru því sem næst á hvínandi kúpunni vegna lögfræðikostnaðar. Hlutir þeirra í Theranos voru á tíma metnir á fleiri milljarða króna.

Balwani hlaut enn lengri fangelsisdóm fyrir sinn þátt í blekkingunum, tólf ár og ellefu mánuði. Hann hóf afplánun 20. apríl eftir að áfrýjunardómstóll hafnaði sambærilegri kröfu um lausn á áfrýjunartíma og Holmes tapaði í gær.


Tengdar fréttir

For­stjóri Thera­nos frestar fangelsis­vist með á­frýjun

Elizabeth Holmes, forstjóri fallna tæknifyrirtækisins Theranos, hefur ekki afplánun á meira en ellefu ára fangelsisdómi í dag þar sem hún áfrýjaði niðurstöðu alríkisdómstóls. Samverkamaður Holmes seinkaði afplánun sinn um mánuð með sams konar áfrýjun í síðasta mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×