Innlent

Hrósar borgarbúum í hástert eftir fyrsta dag fundar

Oddur Ævar Gunnarsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Nærri allir lögreglumenn landsins koma að viðburðinum.
Nærri allir lögreglumenn landsins koma að viðburðinum. Vísir/Vilhelm

Yfir­lög­reglu­þjónn al­þjóða­sviðs ríkis­lög­reglu­stjóra segir leið­toga­fund Evrópu­ráðsins í Hörpu lang­stærsta við­burðinn sem ís­lensk lög­reglu­yfir­völd hafa skipu­lagt. Hann segir að um hundrað sér­fræðingar séu hér frá lög­reglu­yfir­völdum á norður­löndum í tengslum við fundinn og segir fyrsta dag fundarins hafa gengið vel. Hann hrósar borgar­búum í há­stert fyrir að hafa farið eftir reglum.

Karl Steinar Vals­son, yfir­lög­reglu­þjónn, ræddi fyrsta dag leið­toga­fundar Evrópu­ráðsins, sem fram fór í Hörpu í dag í kvöld­fréttum Stöðvar 2. Hann segir að lög­regla muni ekki gefa upp hve mikill mann­skapur sé til taks á svæðinu vegna fundarins, það verði gefið upp að fundi loknum.

„En það er nokkuð ljóst að þetta er lang­stærsti við­burður sem ís­lensk lög­reglu­yfir­völd hafa komið að. Okkur til að­stoðar eru hér lög­reglu­menn frá nær öllum norður­löndunum og öll norður­löndin hafa unnið með okkur að undir­búningnum og við höfum fengið þeirra að­stoð,“ segir Karl Steinar.

„Ég get reyndar stað­fest það að eru rétt tæp­lega hundrað sér­fræðingar frá norður­löndunum, lög­reglu­menn og sér­fræðingar sem verða hér með okkur næstu daga þar til þetta er búið.“

Lítilsháttar smáatriði komið upp á

Karl Steinar segir daginn hafa gengið ein­stak­lega vel hjá lög­reglunni. Hann kveðst stoltur af hópnum sem komið hafi að skipu­lagningu við­burðarins.

„Það er ekkert stór­vægi­legt sem hefur gerst, þetta hefur eigin­lega bara gengið alveg snuðru­laust fyrir sig,“ segir Karl Steinar sem segir engar hand­tökur hafa farið fram vegna fundarins.

„Við höfum verið að fylgjast með dróna­um­ferð og það eru svona ein­hver til­vik en var nú eigin­lega meira um það síðustu daga og þetta hafa meira verið smá­at­riði, fólk hefur ekki alveg verið að átta sig á reglu­verkinu sem er í gangi.“

Býst við töfum á morgun

„Ég vil líka nota tæki­færið og hrósa borgar­búum, fyrir það hvað þau hafa verið til­lits­söm og hlýtt til­mælum okkar og leið­beiningum. Fólk hefur greini­lega virt þau og við erum afar þakk­lát fyrir það,“ segir Karl Steinar.

Hann segir að á morgun megi einnig búast við um­ferðar­töfum vegna fundarins, einkum frá há­degi og fram eftir degi en auk þess að morgni.

„En þetta er ekki langur tími sem er eftir, þannig að vonandi gengur á­fram vel á morgun eins og verið hefur í dag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×