Starfsfólk leggur niður vinnu á leikskólum í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ og í grunnskólum Kópavogs, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar. Í Mosfellsbæ er einnig verkfall hjá BSRB fólki sem starfar á frístundaheimilum.
Verkföllin á þessum stöðum verða í allan dag en á morgun hefur verið boðað til verkfalls hálfan daginn á sömu stöðum. Á næstu vikum verða síðan enn víðtækari aðgerðir í fjölda sveitarfélaga alla vikuna, ef ekki tekst að semja.
Krafa BSRB er sú að félagar þeirra fái sömu laun og samið hefur verið um fyrir aðra starfsmenn sem vinna sömu eða sambærileg störf og að sú launahækkun miði við 1. janúar eins og hjá öðrum, en ekki 1. apríl eins og sveitafélögin gera kröfu um í viðræðum.
Fundir hjá Ríkissáttasemjara hafa ekki skilað neinum árangri og ekki hefur verið boðað til annars fundar þar, sem stendur.