Innlent

Ríkið mun rukka vegna tilfærslu héraðsskjalasafna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir menningar-og viðskiptaráðherra hefur skipað starfshóp um framtíð skjalavörslu í landinu.
Lilja Alfreðsdóttir menningar-og viðskiptaráðherra hefur skipað starfshóp um framtíð skjalavörslu í landinu. Vísir/Arnar

Menningarmálaráðherra segir að ríkið muni rukka þau sveitarfélög sem í sparnaðarskyni hafa ákveðið að loka sínum héraðsskjalasöfnun og færa Þjóðskjalasafni Íslands lögbundin verkefni þeirra. Ráðherra hefur skipað starfshóp um framtíðarfyrirkomulag skjalavörslu landsins. Vanda þurfi til verka við varðveislu sögu þjóðarinnar.

Reykjavíkurborg tók ákvörðun um það í byrjun mars að leggja niður Borgarskjalasafn og að færa lögbundin verkefni þess undir Þjóðskjalasafn í kjölfar skýrslu ráðgjafafyrirtækisins KPMG. Kópavogsbær gerði síðan slíkt hið sama með sitt héraðsskjalasafn - einnig í sparnaðarskyni. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í samtali við fréttastofu þegar tillagan um málið kom fyrst fram að henni þætti ekki skynsamlegt að samþykkja svo afdrifaríka tillögu án þess að samkomulag um málið lægi fyrir við ríkið.

Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra hefur skipað starfshóp undir forystu Kristínar Benediktsdóttur, dósents við lagadeild HÍ, um framtíðarfyrirkomulag skjalavörslu í landinu.

„Það er alveg ljóst, og ég hef auðvitað sagt bæði borginni og öðrum sveitarfélögum, að ríkið mun rukka fyrir þá þjónustu sem við erum að fara að veita. Við erum núna að fara í þessa vinnu þar sem við erum að fara að kortleggja þetta vegna þess að ég hef auðvitað lagt ríka áherslu á það sem menningarmálaráðherra að eitt af því sem við gerum, og höfum gert mjög vel, það er að varðveita söguna. Nú eru auðvitað nýir tímar, við erum í þessari stafrænu byltingu og við leggjum áherslu á það að vinna mjög vel með sveitarfélögunum en auðvitað er það ekki þannig að þau geti lagt niður sína starfsemi og flutt allt yfir í þjóðskjalasafnið án þess að Þjóðskjalasafn Íslands taki ekki eitthvað fyrir það,“ segir Lilja.

En hefur verið rætt um kostnaðarhlutföll í þessu samhengi? Því þetta kom dálítið skyndilega upp?

Já, ég kannast við það líka en það sem við erum að gera núna er að kortleggja stöðuna. En þegar við höfum lokið þeirri vinnu, sem er mjög mikilvæg, þá getum við tekið ákvarðanir varðandi þetta framtíðarfyrirkomulag,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra.


Tengdar fréttir

Tillaga um lokun Borgarskjalasafns samþykkt

Til­laga borga­stjóra um framtíðar­starfs­semi á starfs­semi Borg­ar­skjala­safns var samþykkt í borg­ar­stjórn­ar­fundi í dag með ell­efu at­kvæðum gegn tíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×