Erlent

Skóla­yfir­völd í Flint banna bak­poka í skólum vegna skot­á­rása

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í Texas voru nemendur skikkaðir til að koma með glæra bakpoka í skólann í kjölfar skotárásarinnar í Robb Elementary School í maí í fyrra. 21 lést í árásinni.
Í Texas voru nemendur skikkaðir til að koma með glæra bakpoka í skólann í kjölfar skotárásarinnar í Robb Elementary School í maí í fyrra. 21 lést í árásinni. Getty/Brandon Bell

Skólayfirvöld í Flint í Michigan í Bandaríkjunum hafa ákveðið að banna bakpoka í skólum til að koma í veg fyrir að nemendur komi með vopn eða aðra bannaða hluti í skólann. 

Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að loka þurfti Southwestern Classical Academy í tvo daga í kjölfar öryggisógnar og ítrekaðra skotárása í skólum í Bandaríkjunum. Leitað var álits meðal foreldra, sem virðast hafa stutt ákvörðunina.

Nemendum verður heimilt að koma með nestisbox í skólann og bera nett veski til að geyma persónulega hluti. Þeir verða að nota glæra poka undir íþróttafatnað. Starfsmönnum skólans verður heimilt að leita á nemendum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skólayfirvöld í Bandaríkjunum grípa til aðgerða af þessu tagi til að freista þess að koma í veg fyrir ofbeldisverk innan veggja skólanna. Í öðru skólahverfi skammt frá Flint voru nemendur til að mynda skikkaðir til að nota glæra bakpoka eftir að nemandi skaut fjóra samnemendur sína.

Í Flint hafa mörg atvik komið upp á þessu ári þar sem nemendur hafa mætt með vopn í skólann. Þá hefur nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum verið hótað.

Washington Post hefur eftir David Riedman, stofnanda K-12 School Shooting Database, að áhyggjur skólayfirvalda í Flint eigi sér stoð í tölfræðinni. Ofbeldi þar sem byssur koma við sögu hafi aukist frá 2018 og endurspegli aukið byssuofbeldi á landsvísu.

Í flestum tilvikum sé um að ræða atvik þar sem deilur magnast þar til einhver dregur upp skotvopn, sem Riedman segir vísbendingu um aukinn vopnaburð ungmenna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×