Íslenski boltinn

Dómarinn stöðvaði leik til að minnast Þuríðar Örnu

Sindri Sverrisson skrifar
Fylkiskonur léku síðast í efstu deild fyrir tveimur árum en eru nú í Lengjudeildinni. Hlé var gert á leik þeirra í gær til minningar um dyggan stuðningsmann.
Fylkiskonur léku síðast í efstu deild fyrir tveimur árum en eru nú í Lengjudeildinni. Hlé var gert á leik þeirra í gær til minningar um dyggan stuðningsmann. vísir/Elín BJörg

Leikur Fylkis og Aftureldingar í Lengjudeild kvenna í fótbolta í gærkvöld var stöðvaður í fyrri hálfleik á meðan að viðstaddir minntust dyggs stuðningsmanns Fylkisliðsins, Þuríðar Örnu Óskarsdóttur, sem lést í mars.

Þuríður Arna lést þann 20. mars, tvítug að aldri, eftir að hafa glímt við heilaæxli frá því að hún var aðeins tveggja ára gömul.

Móðir Þuríðar Örnu, Áslaug Ósk Hinriks­dótt­ir, segir á Twitter að talan 20 hafi verið hennar uppáhalds tala og því hafi verið táknrænt að fyrra mark Fylkis í gær hafi verið skorað af leikmanni númer 20, Sunnevu Helgadóttur.

Samkvæmt frétt Fótbolta.net var Þuríðar Örnu svo minnst á 20. mínútu leiksins, og stöðvaði dómarinn Jovan Subic leikinn svo að leikmenn gætu tekið þátt í því með áhorfendum að klappa til minningar um hana.

Skömmu síðar komst Fylkir í 2-0 með marki Guðrúnar Karitasar Sigurðardóttur, en í seinni hálfleik jafnaði Afturelding metin. Niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli í þessum fyrsta leik sumarsins hjá liðunum sem nú spila bæði í Lengjudeild eftir að Afturelding féll úr Bestu deildinni í fyrra en Fylkir lék þar síðast 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×