Erlent

Lög­gjafinn í Kansas sam­þykkir víð­tækt salernis-bann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bannið nær meðal annars til skóla, fangelsa og úrræða fyrir þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis.
Bannið nær meðal annars til skóla, fangelsa og úrræða fyrir þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis. Getty

Löggjafinn í Kansas hefur samþykkt lög sem banna trans fólki að nota það salerni sem samræmist kynvitund þeirra. Um er að ræða eina mest takmarkandi löggjöfina af þessu tagi í Bandaríkjunum, þar sem hún nær ekki aðeins til salerna í skólum.

Laura Kelly, ríkisstjóri Kansas, hafði neitað að skrifa undir lögin, sagt þau mismuna fólki og að þau myndu gera ríkinu erfiðara fyrir að laða að fyrirtæki. Við atkvæðagreiðslu naut lagafrumvarpið hins vegar nægilega mikils stuðnings til að ná í gegn án samþykkis ríkisstjórans.

Þannig greiddu tveir þriðju hlutar þingmanna atkvæði með frumvarpinu.

Mörg ríki hafa takmarkað réttindi trans fólks á síðustu misserum en umrædd lög hafa oft fjallað um skóla sérstaklega. Lögin í Kansas takmarka hins vegar aðgengi trans fólks að salernum á fleiri stöðum; í búningsherbergjum, fangelsum og úrræðum fyrir þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis.

Ekki liggur fyrir hvernig lögunum verður framfylgt en í þeim eru hugtökin „karl“ og „kona“ skilgreind út frá kyni úthlutuðu við fæðingu og sérstaklega vikið að því hvernig aðskilnaður kynjanna á salernum og í öðrum rýmum samræmist því markmiði yfirvalda að standa vörð um „heilbrigði, öryggi og friðhelgi einkalífsins“.

Fyrr í vikunni tóku lög gildi í Norður-Dakóta sem kveða á um að trans ungmennum og fullorðnum sé bannað að nota salerni, búningsklefa og sturtuklefa í skólum og fangelsum til samræmis við kynvitund þeirra.

Þá var trans þingmaður í Montana bannaður í þingsal eftir að hún sagði fyrirhugað bann gegn meðferð trans ungmenna myndu leiða til dauðsfalla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×