Innlent

Þing­maður veltir á­byrgð Rokk­barsins fyrir sér

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Tómas A. Tómasson þingmaður Flokks fólksins segir spuringuna um ábyrgð barsins vera lögfræðilegs eðlis.
Tómas A. Tómasson þingmaður Flokks fólksins segir spuringuna um ábyrgð barsins vera lögfræðilegs eðlis. Vilhelm Gunnarsson

Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, hefur vakið nokkra athygli fyrir tíst sitt um manndrápið í Hafnarfirði. Veltir hann fyrir sér ábyrgð Íslenska rokkbarsins í atburðarásinni.

„Ég veit ekki meira en að þarna voru einstaklingar undir lögaldri inni. Væntanlega að neyta áfengis. Ég velti fyrir mér hver ábyrgð barsins sé,“ segir Tómas um tístið. En tístið hljómar svo:

„I kjölfarið á morði sem átti sér stað fyrir utan fjarðarkaup vakknar upp sú spurning: bera eigendur rokkbarsins ekki ábyrgð þar sem fjórmenningarnir voru allir undir lögaldri og voru væntanlega að neyta áfengis inni á barnum, sem hafði svo þessar afleiðingar???? Eitthvað til að vekja athygli á“

Aðspurður um hver hann telji að ábyrgð barsins sé segir Tómas það vera lögfræðilegs eðlis. En hefði málið komið upp erlendis myndi staðurinn bera einhverja ábyrgð.

Óljóst hver vímuefnaneyslan var

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið það út að hún hafi nokkuð góða mynd af atburðarásinni þegar maður var stunginn til bana á bílastæði Fjarðarkaupa síðastliðinn fimmtudag. Maðurinn var á þrítugsaldri og pólskur að uppruna en fjögur íslensk ungmenni eru í haldi lögreglunnar. Þrír piltar og ein stúlka, þar af þrjú undir lögaldri.

Ekki hefur verið gefið upp hvort eða hvaða vímuefna var neytt þetta umrædda kvöld. Né hverjir neyttu þeirra. Vitað er að á undan árásinni á bílastæðinu átti sér stað ágreiningur milli fórnarlambsins og ungmennanna inni á Íslenska rokkbarnum.

Samkvæmt frétt DV um málið er barinn í eigu litháískrar konu. Hafa eigendur ekki viljað tjá sig um málið. Málið sé í rannsókn.

„Það er allavega einstaklingur látinn. Þess vegna er eðlilegt að velta þessu fyrir sér,“ segir Tómas aðspurður um hvort rétt sé að varpa þessari spurningu fram í ljósi þess að ekki sé vitað hvaða þátt vímuefnaneysla spilaði inn í málið. Hann segist heldur ekki vita hvort hægt sé að skrifa glæp eins og manndráp á vímuefnaneyslu yfir höfuð.


Tengdar fréttir

Tenging við upp­runa fyrsta sem margir Pól­verjar óttuðust

Pólsk kona segir að þó ekki sé talið að manndráp á pólskum manni á fimmtudagskvöld hafi tengst uppruna hans, hafi það verið það fyrsta sem margir Pólverjar á Íslandi óttuðust. Hún segir mál sem þetta setja gjá á milli fólks af mismunandi uppruna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×