Fótbolti

Þvertekur fyrir fullyrðingar íslenskra miðla um meiðsli sín

Aron Guðmundsson skrifar
Jannik Pohl í leik með Fram í Bestu deildinni
Jannik Pohl í leik með Fram í Bestu deildinni Vísir/Diego

Danski sóknar­maðurinn Jannik Pohl, leik­maður Bestu deildar liðs Fram gefur lítið fyrir frétta­flutning ís­lenskra fjöl­miðla af meiðslum sínum og ætlar sér að vera mættur aftur inn á knatt­spyrnu­völlinn eftir tvo mánuði.

Jannik meiddist á hné í fyrsta leik tíma­bilsins í Bestu deildinni þegar að Fram tók á móti FH þegar brotið var á honum innan víta­teigs.

„Ég fæ boltann framarlega á vellinum, fer fram hjá mark­manninum en er þá tekinn niður,“ segir Jannik í við­tali við danska vef­miðilinn Bold.dk.

Daninn knái segist hafa fundið það um leið að eitt­hvað væri að en hafði þó á sama tíma hugsað sér gott til glóðarinnar og vildi reyna að taka víta­spyrnuna sem hafði verið dæmd í kjöl­far brotsins.

„Ég fékk ekki að taka margar slíkar á síðasta tíma­bili. En ef ég á að geta barist um marka­kóngs titilinn þá verð ég að taka nokkrar víta­spyrnur. Ég fann hins vegar strax fyrir sárs­auka í hnénu.“

Mun ekki gefast upp núna

Í fréttum hér heima hefur meðal annars verið greint frá því að Jannik verði frá í fjóra mánuði en hann er ekki sammála því.

„Ég tel að ég verði mættur aftur á völlinn eftir tvo mánuði. Á því liggur enginn vafi í mínum huga.“

Segir hann að góður grunnur að líkam­legu formi sem hann vann að á undirbúningstímabilinu skipti þar mestu máli.

„Ef ég hefði ekki verið svona vel á mig kominn þá hefði þetta geta endað mun verr.“

Pohl hefur gengið í gegnum ýmis­legt á sínum ferli en hann kom af krafti inn í lið Fram á síðasta tíma­bili, skoraði níu mörk og gaf fjórar stoð­sendingar í 21 leik.

Hann er ekki af baki dottinn þó svo að yfir­standandi tíma­bilið hafi byrjað á á­falli.

„Ég gefst aldrei upp og mun ekki gera það núna,“ segir danski sóknarmaðurinn Jannik Pohl í samtali við Bold.dk.


Tengdar fréttir

Fram­herji Fram frá næstu mánuði

Bestu deildarlið Fram hefur orðið fyrir miklu áfalli en framherjinn Jannik Pohl er meiddur og verður frá næstu mánuðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×