Erlent

Sat fyr­ir lög­regl­u­þjón­um eft­ir að hann skaut sam­starfs­menn sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá Cory Galloway þegar hann og Nickolas Wilt nálgast bankann.
Hér má sjá Cory Galloway þegar hann og Nickolas Wilt nálgast bankann. AP/Lögreglan í Louisville

Lögreglan í Louisville í Kentucky hefur birt myndband sem sýnir hvernig fyrstu tveir lögregluþjónarnir sem mættu á vettvang mannskæðar skotárásar í banka í borginni voru særðir af árásarmanninum, sem lét skothríðina dynja á þeim. Fimm dóu og átta særðust í árásinni sem framin var af fyrrverandi starfsmanni bankans.

Lögreglan segir að tilkynning um árásina hafi borist klukkan 8:38 að staðartíma á mánudaginn og að lögregluþjónarnir Nickolas Wilt og Cory Galloway hafi verið mættir á vettvang um þremur mínútum síðar. Wilt er nýliði í lögreglunni og var í starfsþjálfun. Hann útskrifaðist úr lögregluskólanum tíu dögum fyrir árásina.

Þeir voru ekki komnir úr bíl þeirra þegar fyrst var skotið á þá, eins og myndbandið sýnir. Á þessum tímapunkti hafði árásarmaðurinn skotið fólk inn í Old National bankanum og hafði tekið sér stöðu til að sitja fyrir lögregluþjónum.

Sjá einnig: Sam­starfs­mennirnir voru skot­mark á­rásarinnar

Lögregluþjónarnir nálguðust aðaldyr bankans þar sem árásarmaðurinn beið þeirra. Sá gat séð þá í gegnum glugga bankans en lögregluþjónarnir sáu hann ekki vegna endurspeglunar.

Þegar skothríðin hófst fékk Wilt skot í höfuðið og Galloway særðist á öxl.

Þá bar fleiri lögregluþjóna að garði og skiptust þeir á skotum við árásarmanninn. Um þremur mínútum eftir að hann mætti fyrst á vettvang með Wilt, skaut Galloway árásarmanninn til bana.

Umrætt myndband má sjá í spilaranum hér að neðan.

Wilt er enn á sjúkrahúsi og mun vera í alvarlegu ástandi.

Lögreglan í Nashville í Tennessee birti nýverið einnig sambærilegt myndband úr vestismyndavélum lögregluþjóna sem mættu fyrst á vettvang þegar fyrrverandi nemandi hóf skothríð í skóla í borginni. Þá dóu þrjú níu ára gömul börn og þrír starfsmenn skólans.

Viðbrögð við þessum tveimur árásum þykja frábrugðin viðbrögðum lögreglunnar í Uvalde í Texas í fyrra þegar nítján börn og tveir kennarar voru skotin til bana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×