Innlent

Ómari gert að endurgreiða slasaðri konu 1,8 milljónir

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Málið gegn Ómari var tekið fyrir af úrskurðarnefnd lögmanna í mars á þessu ári.
Málið gegn Ómari var tekið fyrir af úrskurðarnefnd lögmanna í mars á þessu ári. samsett

Lögmanninum Ómari R. Valdimarssyni hefur verið gert að endurgreiða slasaðri konu 1,8 milljónir króna vegna lögmannsþóknunar sem talin var margfalt hærri en almennt gerist. Alls fékk konan 9,6 milljónir greiddar frá tryggingafélagi og fékk Ómar greidda 3,1 milljón af þeirri upphæð. 

Mannlíf greindi fyrst frámálinu.

Forsaga málsins er umferðarslys sem konan lenti í og hlaut 10 prósent varanlega örorku af. Sótti hún bætur, með liðsinni Ómars, frá tryggingarfélagi upp á rúmlega 9,6 milljónir króna.

Í desember árið 2021 fór fram uppgjör milli konunnar og Ómars þar sem fram kom að frádegin væri lögmannsþóknun til hans að fjárhæð 3,1 milljón króna, þar sem 715 þúsund krónur komu frá tryggingarfélaginu og 2,3 milljónir voru dregnar frá bótum konunnar. 

Í framhaldinu leitaði konan til úrskurðarnefnar lögmanna í því skyni að fá lögmannsþóknun Ómars lækkaða um 1,8 milljónir. Kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð sinn í mars á þessu ári. Þar er vísað til þess að almennt væri krafist 50-75 prósent álags ofan á innheimtuþóknun sem greidd er af tryggingafélagi. Þóknun í málinu hefði því átt að vera um 1,2 milljón króna. Heildarþóknun var eins og áður segir 3,1 milljón króna sem er um 148 prósent hærri þóknun. 

Mat úrskurðarnefndin þóknunina ósanngjarna og féllst á kröfu sóknaraðila um að endurgjaldið skuli nema rúmlega 1,2 milljón króna. Var Ómari því gert að endrugreiða konunni samtals 1.859.801 króna að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ómar vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×