Fótbolti

Orri Steinn hetjan | Viðar Örn og Árni Vil á skotskónum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn fagnar.
Orri Steinn fagnar. Twitter@SEfodbold

Alls voru þrír íslenskir framherjar á skotskónum í kvöld. Orri Steinn Óskarsson heldur áfram að skora en hann skoraði sigurmark SønderjyskE þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Orri Steinn fór mikinn þegar U-19 ára landslið karla í knattspyrnu tryggði sér sæti á lokamóti EM nýverið. Aðeins komast átta lið á lokamótið og því um mikið að afrek að ræða. Hann nýtti meðbyrinn og skoraði sigurmark SønderjyskE í 2-1 sigri á Vejle í dönsku B-deildinni.

Orri Steinn sem er á láni frá FC Kaupmannahöfn kom inn af bekknum á 65. mínútu og skoraði sigurmarkið þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Atli Barkarson spilaði allan leikinn í vinstri bakverði.

SønderjyskE er í baráttu um að komast upp í dönsku úrvalsdeildina en sem stendur er liðið í 3. sæti með 38 stig, sex stigum á eftir liðinu í 2. sæti.

Viðar Örn Kjartansson skoraði eina mark Atromitos í grísku úrvalsdeildinni þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Levadiakos. Samúel Kári Friðjónsson var í byrjunarliði Atromitos í dag en liðið situr í 7. sæti með 33 stig.

Að lokum skoraði Árni Vilhjálmsson í 4-0 sigri Žalgiris á FK Sūduva í litáensku úrvalsdeildinni. Mark Árna var fyrsta mark leiksins og kom úr vítaspyrnu. Žalgiris situr í 3. sæti deildarinnar með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×