Innlent

Tómas sá eini sem greiddi ekki atkvæði: „Ég er eins og vindpoki á flugvellinum“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Tómas A. Tómasson var eini viðstaddi þingmaðurinn sem greiddi ekki atkvæði.
Tómas A. Tómasson var eini viðstaddi þingmaðurinn sem greiddi ekki atkvæði. Vísir/Vilhelm

Vantrauststillaga á hendur dómsmálaráðherra var felld í dag. Þrjátíu og fimm þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni og tuttugu og tveir með henni. Einn þingmaður var viðstaddur og greiddi ekki atkvæði: Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins.

Tómas, sem er hvað þekktastur sem stofnandi Hamborgarabúllu Tómasar, ákvað að kjósa hvorki með eða á móti tillögunni á Alþingi í dag. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var sakaður um að hafa brotið gegn þingskapalögum þegar hann bannaði útlendingastofnun að afhenda þinginu gögn sem óskað var eftir.

Líkti sér við vindpoka á flugvelli

Þegar Tómas gerði grein fyrir atkvæðinu sínu, eða skortinum á því öllu heldur, hóf hann tala um fyrstu ár Alþingis:

„Sitt sýnist hverjum. Eva Sjöfn Helgadóttir talaði um að veita fordæmi. Eins og allir vita þá var Alþingi Íslendinga stofnað 930. Á árunum 985 til 1001 var Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lögsögumaður. Á þeim tíma risu upp deilur milli kristinna manna og heiðinna. Þorgeir var þá leiðtogi síðarnefndra, sem sagt heiðingja, en leiðtogi kristinna manna var Síðu-Hallur. Sagt er að til að komast að niðurstöðu hafi Þorgeir lagst undir feld í nokkurn tíma og síðan ákveðið að Ísland skyldi vera kristið en leyfa útburð barna, át á hrossakjöti og blót ef það var gert í laumi.“

Eftir þetta útskýrði Tómas svo að hann væri einfaldlega ekki viss um það hvort hann væri með eða á móti tillögunni. Hann ákvað því að lokum að sleppa að greiða atkvæði um tillöguna. „Ég stend hérna og upplifi það að ég er eins og vindpoki á flugvellinum upp á Sandskeiði,“ sagði Tómas í ræðu sinni.

„Ég er búinn að hlusta á ykkur og eftir því sem ég heyri þá trúi ég báðum aðilum og segi eins og Sókrates: Ég veit það eitt að ég veit ekki neitt. Þess vegna greiði ég ekki atkvæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×