Erlent

Fimm ára skaut sextán mánaða bróður sinn til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Árið 2020 var í fyrsta sinn sem byssur urðu algengasta dánarorsök barna í Bandaríkjunum.
Árið 2020 var í fyrsta sinn sem byssur urðu algengasta dánarorsök barna í Bandaríkjunum. Getty

Sextán mánaða drengur var skotinn til bana af fimm ára systkini sínu í Indiana í Bandaríkjunum á þriðjudaginn. Eldra barnið mun hafa komist í skammbyssu sem var á heimili þeirra og notaði hana til að skjóta ungabarnið til bana.

Einn fullorðinn var í íbúðinni og bæði börnin.

Samkvæmt krufningu var drengurinn skotinn einu sinni. Héraðsmiðilinn Journal & Courier segir engan hafa verið handtekinn vegna málsins og það sé enn til rannsóknar. Þegar lögreglan lýkur rannsókn sinni verður málið sent til saksóknara sem taka munu ákvörðun hvort tilefni sé til að ákæra einhvern.

Fyrsta tilkynningin um banaskotið barst frá aðila sem var fyrir utan íbúðina. Sá sagði barnið ekki anda og kallaði eftir sjúkrabíl.

Byssur tóku fram úr bílum 2020

New York Times birti í desember í fyrra grein þar sem fram kom að byssur væru orðnar algengasta dánarorsök barna. Þegar litið var til barna á allt að átján ára aldri sem dóu hafi byssa í um nítján prósent tilfella komið við sögu árið 2021.

Árið 2020 var í fyrsta sinn sem byssur tóku fram úr bílum á þessu sviði.

Árið 2021 dó fimmta hvert barn, af hundrað þúsund, í slysi, sjálfsvígi eða moði þar sem byssa var notuð. Árið 2000 var hlutfallið minna en þrjú af hverjum hundrað þúsund og hélst það nokkuð jafnt fram til 2014, þegar það fór að hækka.

Árið 2021 voru 3.597 börn skotin til bana í Bandaríkjunum, samkvæmt tölum frá yfirvöldum í Bandaríkjunum og hefur dánartíðni barna vegna skotvopna aldrei verið hærri.


Tengdar fréttir

„Ó­þægi­legt þegar eitt­hvað svona gerist ná­lægt manni“

Íslenskur námsmaður sem býr í næsta nágrenni við skotárásina sem varð þremur níu ára börnum að bana í Nashville í gær segir atburðinn skelfilegan. Hún segist nær alltaf vör um sig í skólanum vegna þess hversu skotárásir séu algengar í Bandaríkjunum. Við vörum við myndefni sem fylgir þessari frétt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×