Enski boltinn

Sjá báðir eftir hegðun sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksandar Mitrovic missti algjörlega stjórn á sig og ýtti Chris Kavanagh.
Aleksandar Mitrovic missti algjörlega stjórn á sig og ýtti Chris Kavanagh. Getty/Matthew Ashton

Marco Silva, knattspyrnustjóri Fulham og framherji hans Aleksandar Mitrovic hafa beðist afsökunar á framkomu sinni við dómarann Chris Kavanagh í bikarleik á móti Manchester United á dögunum.

Fulham tapaði leiknum 3-1 og datt úr leik í bikarnum en var 1-0 yfir þegar þeir Silva og Mitrovic fengu rautt spjald fyrir að mótmæla vítadómi.

Kavanagh hafði verið kallaður í Varsjána af myndbandadómurum leiksins og komst að því að Willian hefði varið skot United-leikmanns með hendi. Willian fékk því rautt spjald og United víti.

Marco Silva hraunaði yfir dómarann og fékk rautt spjald en Aleksandar Mitrovic gekk svo langt að hann ýtti dómaranum sem svaraði strax með því að lyfta rauða spjaldinu.

„Ég hefði átt að stjórn tilfinningum mínum betur,“ sagði Marco Silva.

„Ég sé eftir því sem gerðist og ég hef talað við Chris Kavanagh og beðið hann afsökunar. Hann veit að ég ber virðingu fyrir honum og hans störfum,“ sagði Silva.

„Því miður vorum við ekki sammála á þessum degi en ég geri mér grein fyrir því að hann er einn af bestu dómurum landsins og ég veit að þegar við hittumst aftur þá munum við bera virðingu fyrir hvorum öðrum,“ sagði Silva.

Hinn 28 ára gamli Mitrovic er í mun verri málum og gæti fengið langt bann.

Mitrovic sagðist hafa fengið góðan tíma til að hugsa um hegðun sína þegar hann var í burtu með serbneska landsliðinu.

„Ég sé eftir því hvernig ég hegðaði mér. Ég lét pirringinn minn hlaupa með mig í gönur,“ sagði Aleksandar Mitrovic.

„Ég var að reyna að ná athygli dómarans en ég geri mér grein fyrir því að ég átti aldrei að leggja hendur á hann. Ég skil því af hverju hann sýndi mér rauða spjaldið. Þetta er fyrsta rauða spjaldið mitt hjá Fulham og það fyrsta sem ég fær frá 2015-16 tímabilinu,“ sagði Mitrovic.

„Ég sætti mig við þriggja leikja bannið fyrir rauða spjaldið. Ég hef talað við Chris Kavanagh og beðið hann afsökunar,“ sagði Mitrovic.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.