Fótbolti

Kvaradona ætlar að framlengja við Napoli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Khvicha Kvaratskhelia á ferðinni.
Khvicha Kvaratskhelia á ferðinni. getty/Giuseppe Maffia

Allt bendir til þess að ein af skærustu stjörnum Evrópuboltans í vetur, Georgíumaðurinn Khvicha Kvaratskhelia, framlengi samning sinn við Napoli.

Fáir kunnu deili á Kvaratskhelia þegar Napoli keypti hann frá Dinamo Batumi í sumar. En nú þekkja nánast allir fótboltaáhugamenn nafnið.

Kvaratskhelia hefur farið á kostum með Napoli sem er með örugga forystu á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar og komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Kvaratskhelia hefur skorað fjórtán mörk og gefið sextán stoðsendingar í þrjátíu leikjum með Napoli í vetur. Hann kemur því með beinum hætti að marki í leik.

Frammistaða Kvaratskhelias hefur eðlilega vakið athygli stærstu liða Evrópu en svo virðist sem hann muni skrifa undir nýjan samning við Napoli til 2028. Það sem meira er, þá verður ekkert riftunarverð í samningnum.

Kvaratskhelia er í gríðarlega miklum metum hjá stuðningsmönnum Napoli sem kalla hann stundum Kvaradona eftir sjálfum Diego Maradona. Napoli hefur ekki orðið ítalskur meistari síðan Maradona lék með liðinu en allt bendir til þess að það breytist í vor.

Næsti leikur Napoli er gegn ríkjandi Ítalíumeisturum AC Milan á sunnudaginn. Liðin eigast svo við í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar um miðjan apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×