Erlent

Kveiktu í dýnum í mótmælum en fjölmargir dóu í eldsvoðanum

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 39 dóu í eldsvoðanum í Ciudad Juarez í Mexíkó í morgun.
Minnst 39 dóu í eldsvoðanum í Ciudad Juarez í Mexíkó í morgun. AP/Christian Chavez

Flóttamenn sem óttuðust að verða fluttir úr landi kveiktu eld sem leiddi til minnst 39 dauðsfalla í Mexíkó í morgun. Forseti Mexíkó segir mennina hafa kveikt í dýnum við mótmæli í flóttamannabúðum í Ciudad Juarez, nærri landamærum Bandaríkjanna, og að þeir hafi misst tök á eldinum.

Alls voru 68 menn frá Mið- og Suður-Ameríku í búðunum. Auk hinna látnu eru minnst 29 slasaðir og þar af einhverjir í alvarlegu ástandi, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, segir slysið vera óheppilegt og að mótmælendurnir hafi ekki getað ímyndað sér að mótmælin myndu hafa þessar afleiðingar.

AP segir mikla spennu hafa myndast milli yfirvalda annars vegar og flóttafólks í þéttsettum flóttamannabúðum í Ciudad Juarez. Margir bíði eftir tækifæri til að reyna að komast til Bandaríkjanna og aðrir hafi þegar sótt um hæli þar en séu að bíða eftir því að umsóknir þeirra fari í gegnum hið opinbera kerfi.

Flóttafólkið hefur sakað yfirvöld um að brjóta á réttindum þeirra og ofbeitingu valds.

Í síðasta mánuði reyndu hundruð flóttamanna frá Venesúela að brjóta sér leið yfir landamærin á grunni ósanninda um að yfirvöld Í Bandaríkjunum hefðu ákveðið að hleypa öllum inn. Bandarískir lögregluþjónar stöðvuðu þau.

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa beitt ráðamenn í Mexíkó miklum þrýstingi á síðustu árum og krafist þess að Mexíkóar setji tálma í vega farands- og flóttafólks frá Mið- og Suður-Ameríku. Þetta hefur aukið álagið í flóttamannabúðum Mexíkó til muna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×