Erlent

Öfga­full fjöl­kærni sæ­fíla gæti or­sakað ó­tíma­bær dauðsföll

Bjarki Sigurðsson skrifar
Talið er að um það bil 150 þúsund sæfílar séu til í heiminum.
Talið er að um það bil 150 þúsund sæfílar séu til í heiminum. Getty/Francisco Chronicle

Rannsókn vísindamanna við Háskólann í Tasmaníu hefur leitt í ljós að pressan á bak við „öfgafulla fjölkærni“ sæfíla í suðvestur Kyrrahafi gæti orsakað því að lífslíkur karldýra hrynji stuttu eftir kynþroska. 

Sæfílar eru þekktir fyrir mikla fjölkærni en rannsóknin var gerð á um það bil fjórtán þúsund dýrum við strendur Macquarie-eyju í suðvestur Kyrrahafi. Leiddi hún í ljós að lífslíkur sæfíla eru jafnar milli kynja fram að átta ára aldri. Eftir það eru lífslíkur kvendýra um áttatíu prósent en karldýra einungis fimmtíu prósent.

Að mati vísindamanna er öfgafull fjölkærni dýranna þar að sök. Þegar sæfílar koma úr sjónum og upp á land til að makast þá er það stærsta karldýrið sem hefur vinninginn. Hann er kallaður „strandmeistarinn“ og stjórnar allt að hundrað dýra kvenálmu. 

Það er því einungis lítill hluti karldýra sem fær að makast við kvendýrin. Sé ströndin sem dýrin eru á löng er líklegt að finna megi nokkra strandmeistara þar. Samkvæmt grein The Guardian um rannsóknina verða einungis fjögur prósent karldýra að strandmeisturum. 

Það karldýr sem nær að borða mest og safna mestri fitu endar oftar en ekki á því að verða strandmeistari. Þannig safna þeir orku til að berjast við önnur karldýr sem reyna að makast við kvendýr úr kvenálmu þeirra. 

Það að þeir skuli reyna að borða svo mikið gerir þó þá að auðveldari fórnarlömbum fyrir rándýr. Þeir reyna að finna mat á svæðum þar sem einnig má finna önnur rándýr, til að mynda háhyrninga. Þannig minnka lífslíkur þeirra til muna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×