Innlent

Ríkis­lög­reglu­stjóri segir mikil­vægt að fá fram sjónar­mið barna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ríkislögreglustjóri tekur undir með héraðssaksóknara varðandi brottfall þriggja ákvæða úr hegningarlögum.
Ríkislögreglustjóri tekur undir með héraðssaksóknara varðandi brottfall þriggja ákvæða úr hegningarlögum. Vísir/Vilhelm

Árið 2021 var 61 prósent brotaþola í kynferðisbrotamálum sem tilkynnt voru til lögreglu undir 18 ára. Konur voru 85 prósent brotaþola en meðalaldur þeirra var 23 ár og meðalaldur karlkyns brotaþola 20 ár.

Meðalaldur grunaðra var töluvert hærri; 35 ár í tilviki karla og 30 í tilviki kvenna. Karlar voru 94 prósent grunaðra. Að jafnaði var aldursmunurinn á brotaþolum og grunuðum tíu til tólf ár.

Þetta kemur fram í umsögn ríkislögreglustjóra um frumvarp til laga um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs úr 15 árum í 18 ár.

Í umsögninni er tekið undir sjónarmið héraðssaksóknara um niðurfellingu ákvæða 200, 201 og 204 í almennum hegningarlögum.

„Héraðssaksóknari hefur bent á að niðurfelling ákvæða 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga myndi rýra rétt brotaþola sifjaspella og niðurfelling ákvæðis 204. gr. myndi leiða til þess að erfiðara yrði að sanna brot gegn börnum ef ekki yrði lengur hægt að vísa til gáleysis er varðar aldurinn. Embætti ríkislögreglustjóra tekur undir það sem kemur fram í umsögn héraðssaksóknara,“ segir í umsögn ríkislögreglustjóra.

Þá segir að ríkislögreglustjóri taki undir nauðsyn þess að vernda börn fyrir kynferðisofbeldi og misnotkun af hvaða tagi sem hún nefnist. Út frá gögnum lögreglu sé erfitt að fullyrða um áhrifin af breytingunni á lágmarksaldrinum.

Þannig sé mikilvægt að horfa einnig til þeirra sjónarmiða og ákvæða Barnasáttmálans um að börn eigi rétt á að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra og að fullorðnir eigi að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þorska.

„Undirbyggja þarf lagabreytingu sem þessa með rannsókn og tryggja það að sjónarmið barna fái hljómgrunn með verndun þeirra að leiðarljósi.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×