Fótbolti

Stjóri Bayern segir leikmenn sína lata

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julian Nagelsmann var ekki upplitsdjarfur eftir tap Bayern München fyrir Bayer Leverkusen.
Julian Nagelsmann var ekki upplitsdjarfur eftir tap Bayern München fyrir Bayer Leverkusen. getty/Joachim Bywaletz

Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri Bayern München, var æfur eftir tap liðsins fyrir Bayer Leverkusen, 2-1, í þýsku úrvalsdeildinni í gær og gagnrýndi leikmenn þess harðlega.

Bayern náði forystunni í leiknum með marki frá Joshua Kimmich en tvö mörk frá Exequiel Palacios úr vítaspyrnum tryggðu Leverkusen sigurinn. Eftir úrslit helgarinnar er Bayern í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir toppliði Borussia Dortmund.

Nagelsmann var afar ósáttur eftir leikinn gegn Leverkusen í gær og lét leikmenn Bayern heyra það.

„Fyrir utan síðustu tíu mínúturnar vorum við verra liðið. Það var engin orka á vellinum og við spiluðum ekki vel. Við áttum skilið að tapa,“ sagði Nagelsmann. Hann sakaði svo Bæjara um að leggja sig ekki nógu mikið fram.

„Þetta hafði batnað á síðustu vikum, þessi blanda tilfinninga og góðrar spilamennsku. Í dag vorum við latir. Í vörn og sókn sýndu sumir leikmenn núll prósent vinnusemi. Við vorum linir í því hvernig við spiluðum.“

Bayern mætir Dortmund á heimavelli 1. apríl, í fyrsta leik sínum eftir landsleikjahléið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×