Erlent

Knatt­spyrnu­menn 50 prósent lík­legri til að fá heila­bilun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Niðurstöðurnar benda til þess að það gæti verið skynsamlegt að banna „skalla“ í knattspyrnu.
Niðurstöðurnar benda til þess að það gæti verið skynsamlegt að banna „skalla“ í knattspyrnu. Getty

Knattspyrnumenn eru 50 prósent líklegri til að fá heilabilun en annað fólk ef marka má nýja rannsókn við Karolinska-sjúkrahúsið í Svíþjóð. Niðurstöðurnar benda til þess að mögulega ætti að setja reglur um „skalla“ á knattspyrnuvellinum.

Rannsóknin fólst í því að bera saman heilbrigðisgögn 6.000 úrvals knattspyrnumanna og yfir 56.000 annarra á árunum 1924 og 2019. Niðurstöðurnar sýndu að af knattspyrnumönnum í sænsku úrvalsdeildinni greindust níu prósent með taugahrörnunarsjúkdóm en fimm prósent annarra.

Það vakti sérstaka athygli að markmenn, sem afar sjaldan skalla boltann, voru ekki líklegri en almenningur til að greinast með heilabilun eða Alzheimers. Þetta segja rannsakendurnir styðja þá tilgátu að mörg væg höfuðhögg auki líkurnar hjá öðrum leikmönnum.

Knattspyrnumenn reyndust ekki eiga aukna áhættu á að fá hreyfitaugahrörnunarsjúkdóma og þá var áhætta þeirra lægri en annarra þegar kom að Parkinson-sjúkdómnum.

Niðurstöðurnar eru í takt við aðrar rannsóknir, meðal annars skoska rannsókn frá 2019, en samkvæmt niðurstöðum hennar voru fyrrverandi atvinnumenn í knattspyrnu 3,5 sinnum líklegri til að fá heilabilun eða aðra alvarlega taugasjúkdóma.

Á Bretlandseyjum stendur nú yfir tilraunaverkefni þar sem börnum undir 12 ára hefur verið bannað að skalla boltann í ákveðnum deildum og mótum. 

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×