Rafael Mariano Grossi, forstjóri IAEA, tilkynnti aðildarríkjum stofnunarinnar um hvarfið í gær samkvæmt yfirlýsingu sem hún sendi frá sér. Eftirlitsmenn stofnunarinnar hafi uppgötvað að tíu tunnur með auðguðu úrangrýti væru ekki lengur þar sem þær áttu að vera í Líbíu. Frekari upplýsingar var ekki að finna um hvarfið í yfirlýsingunni.
Sjá einnig: Nokkur tonn af úrani horfin í Líbíu
Eins og fyrr segir hefur stofnuninni ekki tekist að staðfesta fundinn. Erfiðlega hefur gengið að komast að svæðinu, sem hefur verið undir stjórn Líbíska þjóðarhersins, vopnaðs uppreisnarhóps undir forystu Khalifa Haftar hershöfðingja.
Hópurinn segir að úranið hafi fundist um fimm kílómetra frá upphaflegum geymslustað, nálægt landamærum Chad.
Ekki er hægt að nota auðgað úrangrýti til þess að framleiða orku eða sprengjur. Til þess þarf yfirleitt fyrst að vinna gas úr grýtinu og meðhöndla það síðan í sérstökum skilvindum til þess að auðga það. Hvert kíló af auðguðu úrangrýti má hins vegar vinna í 5,6 kíló af eldsneyti í kjarnavopn, að sögn sérfræðinga. Því taldi Alþjóðakjarnorkumálastofnunin mikilvægt að hafa uppi á efninu, sem nú virðist hafa gengið eftir.
