Sporting sló Arsenal úr leik í vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nuno Santos skoraði úr fimmtu spyrnu Sporting og tryggði liðinu um leið sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Nuno Santos skoraði úr fimmtu spyrnu Sporting og tryggði liðinu um leið sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Mike Hewitt/Getty Images

Sporting tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir dramatískan sigur gegn Arsenal þar sem vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um sigurvegara.

Fyrri leikur liðanna endaði með 2-2 jafntefli í Portúgal og því var allt undir fyrir leik kvöldsins. Bæði lið freistuðu þess að skora snemma leiks og höfðu greinilega lítinn sem engan áhuga á því að þurfa að fara í framlengingu og mögulega vítaspyrnukeppni.

Heimamenn í Arsenal náðu loks forystunni á 19. mínútu leiksins þegar Granit Xhaka kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Gabriel Martinelli og staðan var 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Gestirnir jöfnuðu þó metin eftir rétt rúmlega klukkutíma leik þegar Pedro Goncalves fékk boltann á miðjunni og tók eftir því að Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, stóð of framarlega í markinu. Goncalves lét vaða af tæplega fimmtíu metra færi og skoraði stórglæsilegt mark.

Ekki tókst liðunum að bæta við mörkum í venjulegum leiktíma og því tók framlenging við. Þar virtust heimamenn í Arsenal líklegri til að skora, en inn vildi boltinn ekki. Gestirnir misstu þó mann af velli stuttu áður en framlengingunni lauk þegar Goncalo Inacio fékk að líta sitt annað gula spjald. Það kom þó ekki að sök og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Jeremiah St. Juste var fyrstur á punktinn fyrir gestina og hann skoraði af miklu öryggi fram hjá Aaron Ramsdale í markinu, en það gerði Martin Ødegaard einnig fyrir Arsenal. Ricardo Esgaio  skoraði einnig fyrir Sporting áður en Bukayo Saka setti boltann í netið fyrir heimamenn.

Áfram héldu liðin að skora.  Goncalo Inacio skoraði úr þriðju spyrnu Sporting, sem og Lendro Trossard úr þriðju spyrnu Arsenal. Arthur Gomes skoraði svo fyrir Sporting, en þá var komið að Gabríel Martinelli fyrir heimamenn. Martinelli steig á punktinn, en hinn reynslumikli Antonio Adan sá við honum áður en Nuno Santos tryggði Sporting sigur með fimmtu spyrnu liðsins.

Sporting verður því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fyrramálið, en liðsmenn Arsenal geta nú farið að einbeita sér að fullu að titilbaráttunni heimafyrir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira