Fótbolti

Þjálfarinn stökk frá borði skömmu áður en Ís­land mætir í heim­sókn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin Stocklasa og Rafael Gruenenfelder eftir 4-0 tap á Laugardalsvelli.
Martin Stocklasa og Rafael Gruenenfelder eftir 4-0 tap á Laugardalsvelli. Mario Hommes/Getty Images

Martin Stocklasa, fyrrverandi þjálfari landsliðs Liechtenstein, sagði starfi sínu lausu fyrr í þessum mánuði. Það má því segja að Liechtenstein verði þjálfaralaust þegar Ísland mætir í heimsókn í undankeppni EM 2024.

Íslenska karlalandsliðið hefur leik í undankeppni EM 2024 þann 23. mars næstkomandi þegar liðið mætir Bosníu-Hersegóvínu ytra. Þremur dögum síðar ferðast liðið til Liechtenstein og mætir heimamönnum. Gestgjafarnir verða hins vegar án mannsins sem hefur stýrt liðinu frá 2020.

Hinn 43 ára gamli Stocklasa stýrði U-21 árs landsliði Liechtenstein árið 2019 og tók svo við A-landsliðinu eftir það. Hann er margreyndur landsliðsmaður sem lék á sínum tíma 113 A-landsleiki fyrir Liechtenstein.

Hann sagði starfi sínu lausu til að taka við Vaduz sem leikur í svissnesku deildarkeppninni líkt og sjö önnur lið frá Liechtenstein þar sem ekki er deildarkeppni í landinu. Vaduz situr sem stendur í 9. sæti B-deildarinnar í Svíss.

Það fellur því í skaut Austurríkismannsins Rene Pauritsch, yfirmann knattspyrnumála hjá Liechtenstein, að stýra liðinu í komandi landsliðsglugga. Sama dag og Ísland mætir Bosníu-Hersegóvínu verður Liechtenstein í Portúgal.

Liechtenstein er í 198. sæti heimslista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og hefur nú spilað 24 leiki án þess að bera sigur úr býtum. Meðal þess eru 4-0 og 4-1 töp gegn Íslandi í undankeppni HM í Katar sem fram fór undir lok síðasta árs.

Landsliðshópur Íslands verður tilkynntur í hádeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×