Erlent

Öku­maðurinn talinn hafa ekið veg­far­endur viljandi niður

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmaður á vettvangi í Amqui í Quebec þar sem ökumaður pallbíls ók niður gangandi vegfarendur með þeim afleiðingum að tveir létust og níu særðust.
Slökkviliðsmaður á vettvangi í Amqui í Quebec þar sem ökumaður pallbíls ók niður gangandi vegfarendur með þeim afleiðingum að tveir létust og níu særðust. AP/CTV News

Saksóknarar í Quebec í Kanada ákærðu karlmann á fertugsaldri fyrir háskaakstur eftir að hann ók pallbíl inn í hóp gangandi vegfarenda í gær. Tveir aldraðir karlmenn létu lífið en ökumaðurinn er talinn hafa ekið viljandi á fólkið.

Níu til viðbótar særðust þegar ökumaðurinn ók bíl sínum á fólk sem gekk eftir vegi í Amqui, um 650 kílómetra norðaustur af Montreal, í gær. Lögreglurannsókn stendur enn yfir en saksóknarar segja of snemmt að segja til um hvort að ökumaðurinn verði ákærður fyrir morð. Þeir boða þó frekari ákærur.

Talsmaður lögreglunnar segir að eftirgrennslan hennar bendi til þess að ökumaðurinn hafi ekið á fólkið að yfirlögðu ráði og að fórnarlömbin hafi verið valin af handahófi, að því er kemur fram í frétt Reuters

Saksóknarinn segir ekki ljóst hvað manninum gekk til. Hann sé á sakaskrá en ekki vegna alvarlegra glæpa.

Aðeins um mánuður er liðinn frá því að rútubílstjóri var ákærður fyrir morð eftir að hann varð tveimur börnum að bana þegar hann ók rútu sinni á barnaheimili í Montreal.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×