Innlent

Kjartan Páll nýr for­­maður Strand­veiði­fé­lags Ís­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Kjartan Páll Sveinsson lauk BA gráðu í mannfræði við Háskóla Íslands og er með doktorspróf í félagsfræði frá London School of Economics.
Kjartan Páll Sveinsson lauk BA gráðu í mannfræði við Háskóla Íslands og er með doktorspróf í félagsfræði frá London School of Economics. Aðsend

Kjartan Páll Sveinsson, strandveiðimaður og félagsfræðingur, var kjörinn nýr formaður Strandveiðifélags Íslands á aðalfundi félagsins sem haldinn var síðastliðinn sunnudag.

Aðalfundurinn var haldinn á eins árs afmælisdegi félagsins sem stofnað var í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu 5. mars á síðasta ári.

Í tilkynningu segir að félagið telji um þrjú hundruð manns og hafi mæting verið ágæt á fundinn.

„Tilgangur félagsins er að standa vörð um og berjast fyrir rétti almennings til handfæraveiða við Íslandsstrendur og koma í veg fyrir mismunun í lögum um fiskveiðistjórnun sem brýtur í bága við stjórnarskrá landsins sem er staðfest alþjóðlega og innanlands.

Það var þungt yfir fólki á fundinum vegna nýjasta útspils matvælaráðherra um svæðaskiptingu og bráðabirgðatillagna frá verkefninu Auðlindin okkar. Strandveiðifélag Íslands á fulltrúa í sjávarútvegsnefndinni en ekki í starfshópunum í því verkefni. Augljóst var af bráðabirgðatillögunum að dæma að ekki var tekið tillit til neins af þeim leiðum, lausnum og sjónarmiðum sem við komum á framfæri á fundunum. Mátti skilja sem svo að Auðlindin okkar miði gagngert að því útrýma strandveiðum.

Ákveðið var að láta ekki deigan síga, heldur halda áfram okkar striki og fara af krafti í baráttu svo handfæraveiðar leggist ekki af. Þetta eru okkar umhverfisvænustu veiðar, bæði hvað varðar olíunotkun, veiðarfæri og verndun hafsbotns. Við teljum þjóðina með okkur í liði.

Nýr formaður var kjörinn Kjartan Páll Sveinsson. Kjartan er strandveiðimaður og félagsfræðingur. Hann lauk BA gráðu í mannfræði við Háskóla Íslands og er með doktorspróf í félagsfræði frá London School of Economics. Kjartan hefur starfað á sviði rannsókna og opinberrar stefnumótunar í nær 20 ár, bæði á Íslandi og í Bretlandi, en hafið á hug hans og hjarta,“ segir í tilkynningunni.

Ný stjórn var kjörin:

  • Axel Örn Guðmundur Geirdal
  • Álfheiður Eymarsdóttir
  • Birgir Haukdal Rúnarsson
  • Friðjón Ingi Guðmundsson
  • Gísli Einar Sverrisson
  • Gísli Páll Guðjónsson
  • Halldóra Kristín Unnarsdóttir
  • Hjörtur Sævar Steinason
  • Þórólfur Júlían Dagsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×