Innlent

Illræmdur blóðsjúgandi fuglamítill staðfestur á Íslandi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Myndir af blóðmítlunum sem fundust í fyrsta sinn hér á landi í villtum fugli í febrúar 2023.
Myndir af blóðmítlunum sem fundust í fyrsta sinn hér á landi í villtum fugli í febrúar 2023. Karl Skírnisson

Blóðsjúgandi mítill fannst í smyrli sem líffræðingur og doktorsnemi hjá Þekkingarsetri Suðurnesja fékk afhent nýverið til rannsóknar. Fundurinn veldur áhyggjum þar sem á ferðinni er sníkjudýr sem halda þarf í skefjum með notkun skaðlegra mítlalyfja. 

Frá fundinum er greint á vef tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði, keldur.is. Þar segir að smyrillinn hafi verið illa á sig kominn og drepist fljótlega, eftir að smitast af gífurlegum fjölda mítla. Í framhaldinu hafi mítlarnir verið rannsakaðir.

„Þarna var á ferðinni mítillinn Ornithonyssus sylviarum (Canestrini & Fanzago, 1877). Þetta tæplega 1 mm langa sníkjudýr sýgur blóð og lifir öll þroskastig í lífsferlinum á fuglinum sjálfum. Lífsferillinn tekur ekki nema 5-7 daga þannig að smit getur magnast hratt upp og smitun verður við snertingu,“ segir í frétt Keldna.

Um sé að ræða mítil sem lifi bæði á villtum fuglum og búrafuglum og sé meðal annars þekktur af því að valda miklum skaða á hænsnabúum víða um heim.

„Fundur þessa mítils hér á landi veldur áhyggjum, ekki hvað síst vegna þess að hér er á ferðinni sníkjudýr sem halda þarf í skefjum með notkun skaðlegra mítlalyfja auk þess sem smitið veldur hýslunum ómældri þjáningu.“

Þá eru fuglamerkingarmenn og aðrir sem handfjatla fugla hvattir til að safna blóðmítlum sem kunna að finnast og koma þeim í greiningu svo hægt sé að fylgjast með þróun þessara mála hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×