Fótbolti

Gætu hætt við þriggja liða riðla á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Giovanni Infantino er forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins.
Giovanni Infantino er forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Sathiri Kelpa/Anadolu Agency via Getty Images

Sú ákvörðun gæti verið tekin síðar í þessum mánuði að hætta við þau áform að breyta fyrirkomulaginu á HM í knattspyrnu árið 2026 í þriggja liða riðla í stað fjögurra.

Heimsmeistaramótið árið 2026 verður haldið með breyttu sniði frá fyrri mótum þar sem liðum fjölgar úr 32 í 48. Mótið verður haldið í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada, en Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hafði kynnt þá hugmynd að skipta mótinu niður í 16 þriggja liða riðla. Þannig myndu tvö lið fara áfram úr hverjum riðli og komast í 32-liða úrslit.

Nú greinir breska ríkisútvarpið, BBC, hins vegar frá því að FIFA gæti snúist hugur um þessi áform. Lokaumferð riðlakeppninnar á HM í katar á síðasta ári hafi verið það spennandi að erfitt sé að taka burt þá spennu. Með þriggja liða riðlum gætu liðin tvö sem spila síðasta leik í riðlakeppninni hæglega kallað fram úrslit sem myndu hleypa þeim áfram á kostnað þriðja liðsins sem verður búið með sína tvo leiki.

Þá myndu þriggja liða riðlar einnig þýða að þriðjungur þjóða sem vinnur sér inn þátttökurétt á HM myndu aðeins spila tvo leiki áður en liðið væri fallið úr leik og þyrfti að halda heim á leið. Fjögurra liða riðlar á 48 liða heimsmeistaramóti gefur áhorfendum einnig 104 leiki til að fylgjast með, en þriggja liða riðlar þýða að heildarfjöldi leikja á mótinu yrði aðeins 80.

Samkvæmt heimildum BBC gæti hugmyndinni um þriggja liða riðla verið snúið við á fundi Alþjóðaknattspyrnusambandsins í Rúanda þann 16. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×