Fótbolti

Risasigur hjá KR gegn Vestra

Smári Jökull Jónsson skrifar
Atli Sigurjónsson var í byrjunarliði KR í dag.
Atli Sigurjónsson var í byrjunarliði KR í dag. Vísir/Vilhelm

KR vann 6-1 sigur á Vestra þegar liðin mættust í Lengjubikarnum í dag. Þrjú marka KR komu á síðustu tíu mínútum leiksins.

KR og Vestri mættust í Lengjubikarnum í dag en leikurinn fór fram á KR-vellinum í Vesturbæ. Jóhannes Kristinn Bjarnason var í byrjunarliði KR en hann kom til liðsins í vetur frá Norrköping. Þá var hinn ungi Jakob Franz Pálsson á bekknum en hann er nýkominn til KR frá Venezia á Ítalíu.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti. Finnur Tómas Pálmason kom Vesturbæingum í 1-0 á 20.mínútu og tveimur mínútum síðar bætti Aron Þórður Albertsson við marki.

Þremur mínútum fyrir hálfleik skoraði síðan Jóhannes Kristinn í sínum fyrsta leik og KR var 3-0 yfir í leikhléi.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað en síðustu tíu mínúturnar gerðust heldur betur hlutir.

Kristján Flóki Finnbogason kom KR í 4-0 á 81.mínútu og Sergine Modou Fall fékk sitt seina gula spjald og þar með rautt á 84.mínútu.

Þrátt fyrir að vera einum færri tókst Vestra að minnka muninn á 90.mínútu þegar Ívar Breki Helgason skoraði en KR bætti við tveimur mörkum í uppbótardíma.

Kennie Chopart skoraði fimmta markið og Kristján bætti við sjötta markinu og sínu öðru í leiknum alveg í blálokin. 

Með sigrinum lyftir KR sér í annað sæti riðilsins en þeir eru með sex stig eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×